Fjármagn nauðsynlegt til að tryggja að nauðsynleg aðstoð nái til fórnarlamba jarðskjálftanna

20. okt. 2005

 

Verið að flytja sært fólk frá Muzaffarabad til Islamabad.
Mynd: Alþjóða Rauði krossinn /Jón Björgvinsson. 

Á meðan ástandið á skjálftasvæðunum versnar dag frá degi hefur Alþjóða Rauði krossinn áhyggjur af litlum viðbrögðum við beiðni samtakanna um stuðning við hjálparstarfið í norðurhluta Pakistan, Indlands og Afghanistan. Aðeins hefur náðst að afla 33,7% af þeim 73 milljónum svissneskra franka (um 3,4 milljarðar íslenskra króna).

Þúsundir fórnarlamba búa enn undir berum himni í miklum næturkulda. Sumir eru alvarlega slasaðir og jafnvel með sár sem drep hefur komist í. Aðgangur að hreinu vatni er takmarkaður. Samkvæmt upplýsingum frá Sameinuðu Þjóðunum er talið að um 63 þúsund manns séu slasaðir vegna skjálftanna en aðeins 16 þúsund hafa fengið læknisaðstoð. Börn og eldra fólk er í sérstakri hættu vegna ástandsins.

?Við höfum áhyggjur af því að þetta verði til þess að við getum ekki stutt af fullum krafti hjálparstarf Rauða hálfmánans í Pakistan en tugir þúsunda fjölskyldna munu þurfa á aðstoð að halda næstu mánuðina,? segir Susan Johnson, aðgerðarstjóri Alþjóða Rauða krossins í Genf. Hún segir einnig að yfirleitt fái samtökin loforð um fjárstuðning hraðar en nú er þegar svo miklar hörmungar dynja yfir.

Alþjóða Rauði krossinn hefur þegar lagt töluverða fjármuni í hjálparstarf, neyðarskýli og læknisaðstoð fyrir þá sem lifðu skjálftana af. Þann 17. október sl pöntuðu samtökin 16.000 tjöld sem hægt er að vera í yfir vetrartímann og eru um 20.000 tjöld til viðbótar á leiðinni. ?Þar sem veturinn nálgast óðfluga verðum við að taka mikla fjárhagslega áhættu til að bjarga mannslífum,? segir Susan Johnson.

Ágætlega gengur að koma hjálpargögnum til fórnarlamba þrátt fyrir að illa farnir vegir og slæm veður geri það erfiðara. Á föstudaginn var flugu 58 þyrlur alls 310 sinnum með hjálpargögn auk þess sem þær fluttu á brott þá sem verst voru slasaðir. Rauði hálfmáninn í Pakistan hefur verið mjög virkur frá því skömmu eftir skjálftann stóra, veitt yfir 5.000 manns læknisaðstoð og dreift yfir 130 vörubílsförmum af hjálpargögnum. Þá hefur vetrartjöldum verið dreift til yfir 1.500 fjölskyldna, alls 10.500 manns.

Til að flýta neyðaraðstoðinni hefur Alþjóða Rauði krossinn sett upp miðstöð aðgerða í Mansehra, sem er 125 km norður af Islamabad, höfuðborg Pakistan. Þessi miðstöð verður notuð fyrir hjálparstarfsmenn sem sérhæfðir eru í heilbrigðisaðstoð auk þess sem þeir munu veita íbúum norðvesturhluta Pakistan vatns- og hreinlætisaðstöðu. Þessa stundina taka u.m.þ.b. 200 starfsmenn frá 19 Rauða kross félögum virkan þátt í hjálparstarfinu á vettvangi en fjöldi annarra landsfélaga styðja það með fjárframlögum.

Rauði kross Íslands mun leggja enn meiri áherslu á söfnun fyrir hjálparstarfið í Pakistan næstu daga. Hægt er að hringja í síma 907 2020 og dragast þá 1000 krónur af næsta símareikningi eða greiða með öðrum hætti með því að smella hér.