Rauði krossinn safnar þrettán milljónum króna vegna hamfara í Pakistan

Þór Daníelsson

14. okt. 2005

 

Blóðbanki pakistanska Rauða hálfmánans útvegar blóð til spítala og heilsugæslustöðva.

Almenningur hefur tekið vel í söfnun Rauða kross Íslands vegna hörmungarsvæðanna í Pakistan. Rúmlega 3.000 manns hafa hringt í söfnunarsímann 907 2020 og einnig hefur ríkisstjórn Íslands ákveðið að leggja fram rúmlega 9 milljónir króna til hjálparstarfs Rauða krossins.

Alþjóða Rauði krossinn hefur nú sent út neyðarbeiðni upp á um 100 milljónir svissneskra franka, eða um fimm milljarða króna, til hjálparstarfsins. Féð verður notað til að aðstoða 150,000 fjölskyldur (750,000 manns), sem voru fórnarlömb jarðskjálftans síðastliðinn laugardag sem náði til norðurhluta Pakistans, Indlands og Afghanistans. Þannig mun Rauði krossinn útvega matvæli, tjöld, teppi, eldurnaráhöld og læknisaðstoð til þeirra sem lifðu jarðskjálftann af og þurfa á aðhlynningu að halda.

?Við erum mjög ánægð með myndarlegt framlag ríkisstjórnarinnar og þakklát fyrir viðbrögð almennings við söfnun Rauða krossins" segir Sigrún Árnadóttir, framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands.

Pakistanski Rauði hálfmáninn heldur áfram að koma neyðargögnum til svæða sem verst hafa orðið úti. Rauði hálfmáninn hefur sent fleiri tugi læknateyma á skjálftasvæðin. Þá er byrjað að flytja slasaða til höfuðborgarinnar, Islamabad, og stórborgarinnar Rawalpindi. Blóðbanki pakistanska Rauða hálfmánans sér um að útvega blóð fyrir spítala og heilsugæslustöðvar.