Viðbrögð Rauða krossins vegna jarðskjálftanna í Pakistan

Konráð Kristjánsson

8. okt. 2005

Öflugur jarðskjálfti reið yfir Pakistan í morgun. Fyrstu fréttir herma að upptök skjálftans séu 95 km norðaustur af Islamabad. Skjálftans varð vart á stórum svæðum í Pakistan, Indlandi og Afganistan. 

Rauði kross Íslands er í viðbragðstöðu vegna jarðskjálftanna og starfsmenn félagsins eru í sambandi við höfuðstöðvar Alþjóða Rauða krossins í Genf. Rauði kross Íslands er reiðubúinn að veita þá aðstoð sem leitað er eftir en áherslan er á að nota þann mannafla og birgðir sem eru á staðnum.

Ljóst er að hjálparstarfið verður mjög erfitt þar sem víða er um að ræða afskekkt fjallahéruð þar sem vegir eru lélegir. Fé til fyrstu viðbragða Rauða krossins kemur úr neyðarsjóði Alþjóða Rauða krossins sem Rauði kross Íslands hefur lagt áherslu á að styðja með fjárframlögum.


Viðbrögð Alþjóða Rauða krossins:

Pakistan
Í Islamabad aðstoða sjálfboðaliðar og starfsmenn pakistanska Rauða hálfmánans á vettvangi og skipuleggja brottflutning slasaðra til nærliggjandi sjúkrahúsa. Sjúkrabílar Rauða hálfmáns eru notaðir til að flytja slasaða og blóðbanki félagsins útvegar blóð. Matsteymi Rauða hálfmáns eru í Manshera, Swat og Batgram og önnur slík teymi eru á leið að jarðskjálftasvæðunum. Alþjóða Rauði krossinn vinnur náið með pakistanska Rauða hálfmánanum og yfirvöldum.

Indland
Indverski Rauði krossinn er að safna saman upplýsingum um ástandið. Deildir Rauða krossins í Kashmír eru þessa stundina á neyðarfundi með yfirvöldum þar sem verið er að taka ákvarðanir um viðbrögð. Starfsmenn Alþjóða Rauða krossins á Indlandi eru að útvega neyðarbirgðir fyrir indverska hluta Kashmír.

Afganistan
Yfirmaður skrifstofu Alþjóða Rauða krossins í Afganistan er á leið til Badakhshan svæðis við landamæri Pakistans til að meta ástandið

Nánari upplýsingar veitir David Lynch verkefnisstjóri neyðaraðstoðar í síma 661-7225.