Fatagámur fyrir sýrlenska flóttamenn farinn

14. feb. 2014

Fatagámur frá Rauða krossinum, Fatímusjóði og hópnum Sendum hlýjan fatnað til Sýrlands var sendur til Líbanons í gær. Tæp 5.000 kíló söfnuðust og voru alls um 20.000 flíkur í gámnum. Allar tegundir fatnaðar söfnuðust, allt frá nærfötum til skjólfatnaðar, og var sérstök áhersla lögð á konur og börn.

Mikill fjöldi fólks og fyrirtækja lögðu söfnuninni lið og eiga allir þakkir skildar. Prjónahópur  var stofnaður á Facebook sem framleiddi ótrúlegt magn af prjónavörum á mettíma. Steinunn Aradóttir, 88 ára og búsett á Höfn í Hornafirði, var þar fremst meðal jafningja. Þrátt fyrir sjónskerðingu sendi Steinunn stóran kassa af prjónlesi í söfnunina. Þrjátíu og einn sjálfboðaliði vann að flokkun og pökkun og aðeins tók 6 daga að fylla gáminn.

Gámurinn verður um 3 vikur á leiðinni og áætlar Rauði krossinn í Líbanon að það taki um 3 vikur að dreifa fatnaðinum  til sýrlensku flóttafjölskyldnanna. Hjálparstarf Rauða krossins vegna flóttamanna frá Sýrlandi nær til um 5,4 milljóna manna. Um 2,5  milljónir Sýrlendinga hafi flúið til nágrannaríkjanna og hafa um 750.000 sýrlenskir flóttamenn leitað hælis í Líbanon.

Rauði krossinn á Íslandi hefur frá því í haust stutt rekstur færanlegra læknastöðva Rauða krossins í Líbanon. Um er að ræða þrjár hreyfanlegar sjúkrastöðvar sem starfræktar eru fyrir framlög Rauða krossins á Íslandi og í Noregi. Fatímusjóður studdi verkefnið um 10 milljónir króna. Læknar og hjúkrunarfræðingar fara um svæðin og veita margvíslega læknisþjónustu auk þess sem gefinn er sérstakur gaumur að leiðum til að koma í veg fyrir kynbundið ofbeldi og ofbeldi gegn börnum sem því miður fylgir oft aðstæðum sem þessum.

Alþjóða Rauði krossinn er meðal fárra samtaka sem veitir aðstoð á svæðum sem stjórnarherinn í Sýrlandi hefur á valdi sínu með því að dreifa matvælum og halda uppi vatnsveitukerfi fyrir íbúa landsins. Rauði krossinn á Íslandi hefur, meðal annars með framlagi frá utanríkisráðuneyti og almenningi, stutt þessa lífsnauðsynlegu neyðaraðstoð.
 
 
Jónína Helga Björgvinsdóttir færði söfnuninni þessa fallegu sokka.
 
Álfheiður Ingadóttir, Bergþóra Gísladóttir og Edda Ragnarsdóttir fyrir aftan.
 
Vaskur hópur pakkar fatnaði til Sýrlands. Ótrúleg afköst! Líka hjá þeim sem koma með og gefa hlýjan fatnað; Herdís Kristjánsdóttir, Jóhanna Kristjónsdóttir, Guðrún S Gísladóttir, Edda Ragnarsdóttir, Álfheiður Ingadóttir, Rannveig Guðmundsdóttir, Auður Gísladóttir, Gudlaug Petursdottir, Guðríður Óskarsdóttir og Helga Kristín Helgadóttir.