600 tombólubörn aðstoða 600 börn á Haítí

11. jan. 2011

Börn sem þjást vegna jarðskjálftans á Haítí njóta nú góðs af fjáröflunum tombólubarna Rauða krossins á síðasta ári. Munaðarlaus börn, sem hingað til hafa sofið á jörðinni, fengu rúm og skólabörn ritföng og nýjar skólatöskur.

Tæplega 600 krakkar styrktu starf Rauða kross Íslands á síðasta ári um samtals rúmlega eina milljón króna. Í ár héldu íslensku börnin í langflestum tilvikum tombólur til styrktar börnum á Haítí, en framlag tombólubarna rennur ætíð til styrktar verkefnum Rauða krossins við að aðstoða börn í fátækari ríkjum heims.

Svo skemmtilega vill til að alls munu milli 500 og 600 börn njóta góðs af gjafmildi íslensku barnanna og því má segja að hvert og eitt tombólubarn hafi glatt eitt barn á Haítí með sínu starfi.

Birna Halldórsdóttir sendifulltrúi Rauða kross Íslands á Haítí, sem er nýkomin heim, afhenti fyrstu  skólavörurnar og rúmin áður en hún kom heim fyrir jólin. Á munaðarleysingjaheimilinu eru 24 börn.

„Það var yndislegt að geta útvegað rúmin því hingað til hafa flest börnin sofið á jörðinni í litlum tjöldum,“ segir Birna. „Við fórum líka með stórt tjald á staðinn og núna geta börnin sofið í rúmum í því.“

Birna starfaði á tjaldsjúkrahúsi, sem komið var upp á knattspyrnuvelli í úthverfi höfuðborgarinnar Port-au-Prince. Á sjúkrahúsið hafa komið börn úr nágrenninu til að fá sálrænan stuðning eftir hinn hræðilega jarðskjálfta sem varð 220.000 manns að bana 12. janúar 2010. Birna afhenti börnunum skólavörur, sem munu nýtast vel á næstunni.

„Ég útskýrði fyrir börnunum að jafnaldrar þeirra á Íslandi hefðu safnað peningum fyrir þessu og þau yrðu mjög glöð að vita af því að þetta gæti orðið til þess að gera börnunum á Haítí kleift að fara í skóla,“ segir Birna. „Skólinn er nýhafinn og kennslan fer fram í tjaldi. Það var svo gaman að geta afhent börnunum skriffæri og bækur því þau áttu ekkert slíkt og þau langar svo mikið til að læra.“

Birna og aðrir sendifulltrúar Rauða kross Íslands sem hafa starfað við tjaldsjúkrahús í Carrefour hverfi Port-au-Prince undanfarna mánuði hafa verið að aðstoða munaðarlaus börn í grenndinni. Þá stendur Rauði kross Íslands fyrir sálrænum stuðningi við börn á skjálftasvæðinu. Á næstu dögum verða keypt fleiri rúm, dýnur, ritföng og skólatöskur fyrir þessa ungu skjólstæðinga.