Aukin áhersla á endurhæfingarverkefni Rauði krossins eftir árás í Afganistan

13. jún. 2013

Rauði krossinn á Íslandi styður nú á þriðja þúsund fatlaðra einstaklinga í Afganistan, þar sem styrjöld hefur geisað í meira en þrjá áratugi. Aðstoð við fatlaða á vegum Rauða krossins heldur áfram á meðan unnið er að endurmati annarar starfsemi í kjölfar árásar á skrifstofu samtakanna í Jalalabad í lok maí þar sem starfsmaður lét lífið.

Fyrir framlög Rauða krossins á Íslandi sækja rúmlega sextán hundruð hreyfihömluð börn skóla eða fá kennara heim til sín, hundruð ungmenna fá starfsþjálfun og fjöldi fullorðinna sem misst hafa útlim fá smálán til að koma sér upp litlum fjölskyldufyrirtækjum.

„Hér er um að ræða eitthvert árangursríkasta hjálparstarf sem ég hef komið að,“ segir Þórir Guðmundsson sviðsstjóri hjálparstarfssviðs Rauða krossins, sem er nýkominn frá Afganistan. „Þjálfun og aðstoð við að kaupa saumavél, straujárn og önnur verkfæri til fatasaums hefur gjörbreytt lífi ungra kvenna, sem áður báru enga von til framtíðarinnar.“

Á hverju ári komast upp undir 400 ungmenni í slíka starfsþjálfun og geta í kjölfar hennar sótt um smálán til að koma upp litlu fyrirtæki. Karlar fara gjarnan að selja ýmsan smávarning á götum úti en konur eru líklegri til að koma á fót saumastofu á heimilinu. Þannig komast þær í kringum mikla almenna andúð sem enn er á atvinnuþátttöku kvenna, einkum giftra, utan heimilisins.

Fatima Ehsani er ein þeirra kvenna sem fara gegn straumnum. Hún stofnaði saumastofu við markaðsgötu í Kabúl og hannar þar kjóla og annan fatnað á konur. Starfsemi Fatimu er að auki óvenjuleg fyrir þær sakir að hún er illa gangfær eftir að hafa fengið lömunarveiki.

„Ég bý með foreldrum mínum og í upphafi bönnuðu þeir mér að stofna til reksturs,“ segir Fatima. „En svo létu foreldrar mínir til leiðast og nú get ég borgað leigu, greitt afborgun af láninu frá Rauða krossinum og lagt til heimilisins.“

Fatima er með fimm starfsnema á saumastofunni, þar af tvo fatlaða nema sem Rauði krossinn styður. Þegar hún er spurð um hjúskaparstöðu hikar hún örlítið en segist svo vera ógift. Það geislar dugnaðurinn af Fatimu, en fatlaðar konur þykja ekki eftirsóknarvert hjúskaparefni í Afganistan.  

Alþjóða Rauði krossinn hefur haldið úti hjálparstarfi í Afganistan síðan 1988 og fjölmargir sendifulltrúar Rauða krossins á Íslandi hafa linað þjáningar stríðshrjáðra Afgana á þeim tíma. Árásin á skrifstofur Rauða krossins í Jalalabad hefur komið starfsemi samtakanna í uppnám. Rauði krossinn vinnur nú að því að endurmeta starfsemina í landinu með öryggi starfsmanna sinna að leiðarljósi, en gífurleg þörf er fyrir það mannúðarstarf sem þar er unnið.

Á næsta ári verða kosningar í landinu og er gert ráð fyrir brotthvarfi alþjóðlegra herja úr landinu skömmu síðar.

„Rauði krossinn var til staðar fyrir þá sem þjást vegna stríðs og náttúruhamfara í Afganistan á tímum skæruliða, talíbana og fjölþjóðahersins,“ segir Þórir. „Nú er unnið að því að skipuleggja hvernig starfsemin getur haldið áfram þannig að öryggi allra starfsmanna sé tryggt. Rauði krossinn og Rauði hálfmáninn verða líka til staðar eftir að erlendir herir fara, hvað sem þá tekur við.

Fatima Ehsani, 26 ára, lærði fatasaum hjá Rauða krossinum og er nú með eigin saumastofu í Kabúl, Afganistan. Hún tekur að sér nema, bæði frá Rauða krossinum og í einkakennslu. Hún þjáist af lömunarveiki.
Hakima Ahmadi, 20 ára, er starfsnemi í fatasaumi í Kabúl, Afganistan.   
Hjólastólakörfubolti á gervilimaverkstæði Rauða krossins (ICRC) í Kabúl.
Hamayro Dotkho, 27 ára, lamaðist fyrir neðan mitti í jarðskjálftanum mikla í Bam í Íran í desember 2003. Hún missti eiginmann sinn og tvö ung börn. Nú býr hún hjá bróður sínum í heimahéraði sínu. Hamayro lærði fatasaum hjá Rauða krossinum og fékk svo smálán til að hefja rekstur saumastofu, sem hún starfrækir á heimili sínu.
Á gervilimaverkstæði Rauða krossins (ICRC) í Kabúl, Afganistan.