Langvinnar afleiðingar flóðanna á Balkanskaga

16. júl. 2014

Sigríður Þormar sálfræðingur var að koma frá Bosníu og Herzegóvínu þar sem hún starfaði með Rauða krossinum þar í kjölfar flóðanna í maí. Sigríður gerði úttekt á þörf fyrir sálrænan stuðning, skipulagði aðgerðir og sá um þjálfun starfsmanna og sjálfboðaliða til að hjálpa fórnarlömbum flóðanna.

Mikill skaði varð á Balkanskaga þegar flóðin skullu yfir stór landsvæði. Fólk átti fótum sínum fjör að launa. Margir sátu á þökum húsa sinna, án vatns og matar, allt að þrjá daga. Enn eru um 1300 manns í fjöldahjálparskýlum, flestir þeirra veikburða, fatlaðir og aldraðir. Þörfin er enn mikil fyrir aðstoð við uppbygginguna þar sem 25 þúsund hús eru mikið skemmd eða með öllu ónýt.   

Rauði krossinn gegnir lykilhlutverki í sálrænum stuðningi fyrir fórnarlömb flóðanna á þessu svæði þar sem stutt er síðan mikil átök geisuðu og andleg líðan fólks var því viðkvæm fyrir. Rauði krossinn á Íslandi mun styðja við Rauða krossinn í Bosníu og Herzegóvínu sem og Serbíu. Ekki var þó þörf fyrir utanaðkomandi ráðgjöf varðandi sálrænan stuðning i Serbíu. Bæði löndin njóta hins vegar góðs af söfnun Rauða krossins og annarra aðila hér á landi. Stjórnvöld á Íslandi lögðu þjóðunum tveimur lið með framlagi upp á 8 milljónir sem Rauða krossinn mun ráðstafa. Féð er notað til dreifingar á hjálpargögnum og til að efla sálrænan stuðning.

Söfnun Rauða krossins fyrir fórnarlömb flóðanna stendur enn yfir. Hægt er að hringja í söfnunarsímana 904 1500, 904 2500 eða 904 5500 og þá dregst upphæð sem svarar síðustu fjórum tölustöfunum af símreikningi viðkomandi. Einnig er hægt að leggja inn á söfnunarreikning Rauða krossins á Ísland: 342-26-12 kt. 5302692649.

Viðtal við Sigríði Þormar á mbl.is.