Hálft ár frá jarðskjálftum á Haítí og enn ríkir neyð

Gunnþórunni Jónsdóttur blaðamann á Morgunblaðinu

12. júl. 2010

Hjálparstarfið er orðið skipulagðara og hefur gengið framar vonum
Rauði kross Íslands minnist þess að í dag eru sex mánuðir liðnir frá einum mannskæðustu náttúruhamförum í áratugi, jarðskjálftanum á Haítí. Rauði krossinn hefur sent alls 25 sendifulltrúa til Haítís og eru fimm þeirra þar enn og starfa þeir við lækningar, hjúkrun og stjóarn verkefna á sviði hreinsunar og vatnsöflunar. Sendifulltrúarnir mæltu sér mót í Rauðakrosshúsinu í gær og rifjuðu upp vel heppnað hjálparstarf og ræddu einnig ástandið á jarðskjálftasvæðinu.

Þórir Guðmundsson, sviðsstjóri alþjóðasviðs Rauða kross Íslands, segir hjálparstarfið hafa gengið vel. „Hjálparstarfið er farið að taka á sig mynd og er orðið miklu skipulagðara,“ segir Þórir. Hann segir þetta vera tækifæri til þess að minna aðeins á Haítí. „Það er merkilegt hvað þetta gleymist fljótt. Þetta er einstakur atburður og erfiðleikarnir sem þetta hefur valdið hafa verið meiri en víðast hvar. Þetta er eitt fátækasta ríki heims og það var slæmt ástand fyrir.“

Tifandi tímasprengja
Þórir segir hjálparstarfið erfitt í þessum aðstæðum. Erfitt sé að athafna sig, vegirnir séu þröngir og erfitt að komast um á stórum bílum. „Fólk tjaldar nánast á vegunum. Það er allt í kringum þetta sem gerir þetta mjög erfitt.“ Ekki hafa blossað upp neinir sjúkdómar á svæðinu og telur Þórir það vera það sem gengið hefur best í hjálparstarfinu. „Þetta er búið að vera tifandi tímasprengja að það blossi upp farsjúkdómar því það gerist þegar þrengslin eru svona mikil. Þess vegna má í rauninni segja að það sem hefur gengið vel í hjálparstarfinu er að koma í veg fyrir að þessar hamfarir yrðu miklu meiri en þær voru, vegna þess engir sjúkdómar hafa komið upp. Það hefur tekist að halda lífi í fólkinu.“
65 milljónir króna hafa safnast á Íslandi til styrktar Haítí og segir Þórir stærsta hlutann vera frá almenningi. „Það myndaðist mikil samúð í upphafi. Ég óttast samt að Haítí sé að gleymast og vona að það sé ekki, því þetta fólk þarf á stuðningi okkar að halda,“ segir hann. Rauði krossinn hefur einsett sér að vinna á meðan neyðarástandið varir en búist er við að það vari að minnsta kosti fram yfir fellibyljatímabilið, sem er í lok sumars.

Erfitt tímabil fyrir fólk á svæðinu
Þórir segir fellibyljatímabilið stórhættulegt fyrir þá sem hafa ekkert annað en tjöld og plastdúka til að skýla sér. Spurður hvort sendifulltrúarnir verði í hættu svarar hann því neitandi. „Þótt flestir búi í tjöldum þá er hús þar í byggingu sem hægt er að leita skjóls í,“ segir hann en nú eru framkvæmdir að fara í gang við að reisa bráðabirgðahúsnæði. „Þetta verður erfitt tímabil fyrir fólk sem á heima þarna og býr við ömurlegar aðstæður.“

Þórir segist vona að stórir fellibylir lendi ekki á Haítí en bætir við að það verði miklir vindar og miklar rigningar. Undirbúningur fyrir tímabilið stendur nú yfir, m.a. að koma hjálpargögnum fyrir í vörugeymslum. „Hjálparstarfið hefur gengið vel. Þær áætlanir sem voru settar um að ná til ákveðins fjölda fólks með ákveðna hluti hafa gengið eftir.“

Starfið gekk vonum framar
Hlín Baldvinsdóttir, sendifulltrúi Rauða krossins, var á Haítí í mánuð. Hún segir það ótrúlegt hvað hún var fljót að aðlagast aðstæðum. „Þarna var í rauninni ekkert. Það tók um þrjár vikur að koma upp búðum fyrir okkur, svo að fólk fengi sæmilega aðstöðu,“ segir hún. „Við vorum heppin að við höfðum aðgang að vatni.“

Hlín sá um fjármál og stjórnun og sinnti ýmsum tengdum verkefnum. Hún segir starfið hafa gengið framar öllum vonum. Hægt var að gera fjárhagsáætlanir en bankarnir voru opnaðir tæpri viku eftir að jarðskjálftarnir skullu á. „Það sem er erfiðast er að það er svo gífurlega mikið af fólki þarna í kring sem þú sérð og þarf á aðstoð að halda og maður veit að það eiga eftir að líða vikur þangað til maður sér [framfarir].“

Að minnsta kosti 223.000 manns létu lífið í skjálftanum og 300.000 slösuðust. Ein og hálf milljón manna er enn heimilislaus á Haítí vegna jarðskjálftans.

Höf: Gunnþórunn Jónsdóttir. Greinin birtstist í Morgunblaðinu 12.07.2010.