Tveir íslenskir hjúkrunarfræðingar til starfa fyrir Rauða krossinn á Haítí

31. maí 2010

Tveir íslenskir hjúkrunarfræðingar héldu á laugardaginn til starfa fyrir Rauða kross Íslands á Haítí. 

Elín Jakobína Oddsdóttir og Oddfríður Ragnheiður Þórisdóttir verða báðar við störf á sjúkrahúsi finnska og þýska Rauða krossins í Port-au-Prince til 28. júní næst komandi.

Elín mun starfa sem bráðahjúkrunarfræðingur en Oddfríður sem deildarhjúkrunarfræðingur. Fyrir á sjúkrahúsinu er Margrét Rögn Hafsteinsdóttir yfirhjúkrunarfræðingur og Bjarni Árnason bráðalæknir en hann lýkur störfum þar nú um mánaðamótin maí/júní. Kristjón Þorkelsson sem er margreyndur sendifulltrúi Rauða kross Íslands á sviði vatnshreinsi- og hreinlætismála, hefur starfað fyrir Alþjóða Rauða krossinn síðan í febrúar og verður á Haítí fram í miðjan september.

Oddfríður starfaði fyrir Rauða krossinn í Pakistan í 9 mánuði árið 2006 vegna gríðarlegs jarðskjálfa sem varð þar í október 2005. Þetta er fyrsta starfsferð Elínar fyrir Rauða krossinn. 

Elín og Oddfríður eru 19. og 20. hjálparstarfsmennirnir sem Rauði kross Íslands sendir til  Haítí í kjölfar jarðskjálftans mikla sem reið yfir 12. janúar.

Kristjón er nú í stuttu fríi á Íslandi en heldur aftur til Haítí 2. júní. Hjúkrunarfræðingarnir Ruth Sigurðardóttir og Valgerður Grímsdóttir eru nýkomnar frá Haítí, og eru reiðubúin til að veita fjölmiðlum viðtal.