Sérfræðingur í dreifingu hjálpargagna á leið til Haítí

13. apr. 2010

Birna Halldórsdóttir hélt til Haítí í dag, þriðjudaginn 13. apríl, til starfa fyrir Rauða kross Íslands. Birna mun starfa með finnskri og franskri sveit við dreifingu hjálpargagna Alþjóða Rauða krossins.

Birna er mannfræðingur og hefur langa reynslu af störfum fyrir Rauða kross Íslands, bæði á landskrifstofu og við alþjóðleg neyðarverkefni. Síðast starfaði Birna í Malaví þar sem hún vann við að skipuleggja og útfæra verkefni til að tryggja fæðuframboð fyrir skjólstæðinga malavíska Rauða krossins. Árið 2005 vann hún í Aceh á Súmötru í Indónesíu þar sem hún stýrði dreifingu hjálpargagna eftir flóðbylgjuna miklu. Áður hefur hún unnið í Suður-Súdan, Sómalíu og Keníu.

Núna eru þrír aðrir sendifulltrúar Rauða kross Íslands að störfum á Haítií: Valgerður Grímsdóttir og Sigurjón Valmundsson, sem starfa við tjaldsjúkrahús norska Rauða krossins í Petit Goave; og Kristjón Þorkelsson sem er margreyndur hjálparstarfsmaður á sviði vatnshreinsimála.

Frá því að jarðskjálftinn reið yfir um miðjan janúar hefur Rauði kross Íslands nú alls sent fimmtán sendifulltrúa til margvíslegra starfa á Haítí.