Tæmdu sparibaukana fyrir börnin á Haítí

15. feb. 2010

Börnin í 4. bekk í barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri ákváðu að hafa söfnunarviku og safna peningum fyrir börnin á Haítí.

Aðferðin sem þau notuðu var hverjum og einum alveg frjáls. Til að mynda tæmdu þau sparibaukana sína,  gengu með hunda fyrir fólk gegn greiðslu og söfnuðu frjálsum framlögum með því að ganga í hús.

Upphaflega var ákveðið að taka eina skólaviku í verkefnið en ákafi barnanna var svo mikill að söfnuninni lauk á einni helgi og það söfnuðust 51.505 krónur.

Ragnheiður starfsmaður Árnesingadeildar Rauða krossins fékk boð um að koma í heimsókn til að taka á móti peningunum og segja frá Rauða krossinum. Henni fannst börnin aldeilis vera búin að vera dugleg því einn veggurinn í skólastofunni var Haítí veggur þar sem meðal annars var kort sem þau höfðu teiknað af Haítí og einnig höfðu þau lært ýmislegt. Þau ætluðu svo aldeilis að kynna sér allt það efni sem er á vefsíðu Rauða krossins.

Rauð krossinn þakkar þeim kærlega fyrir framlagið.