Fimm ár frá hamförunum á Haítí

12. jan. 2015


Í dag eru liðin fimm ár frá skelfilegum náttúruhamförum á Haítí. Þann 12. janúar árið 2010 varð jarðskjálfti sem mældist 7.0 að stærð en upptök hans voru aðeins um 25 kílómetra fyrir utan höfuðborgina Port-au-Prince. Yfir 200 þúsund manns fórust í hamförunum. Um tvær milljónir misstu heimili sín.

Rauði krossinn á Íslandi tók virkan þátt í gífurlega umfangsmiklum hjálparaðgerðum Alþjóða Rauða krossins með því meðal annars að senda samtals 28 sendifulltrúa til Haítí auk hjálpargagna sem send voru með flugi. Þann 14. janúar var fyrsti sendifulltrúinn mættur, Hlín Baldvinsdóttir rekstrarfræðingur, en hún gegndi stöðu fjármálastjóra sérfræðingateymis Alþjóða Rauða krossins fyrstu mánuðina eftir hamfarirnar.

Sendifulltrúar Rauða krossins á Íslandi komu að mörgum þáttum hjálparstarfsins. Læknar og hjúkrunarfræðingar hlúðu að sárum og aðrir sérfræðingar stýrðu bæði vatnsöflun og frárennslismálum, dreifðu hjálpargögnum og aðstoðuðu Rauða krossinn á Haítí við skipulag áfallahjálpar. Þá flutti flugvél sem íslenska utanríkisráðuneytið leigði hjálpargögn sem safnað var á Íslandi með mikilli aðstoð almennings og fyrirtækja og nýtt voru í starfi Rauða krossins.

Framlag Rauða krossins nam alls 80 milljónum króna. Almenningur lagði þar sitt af mörkum en alls söfnuðust rúmlega 44 milljónir í símasöfnun. Fyrir það á íslenska þjóðin heiður skilinn.