Fermingarbörn á Álftanesi söfnuðu fyrir Haíti

Morgunblaðið

11. feb. 2010

 

 
 Samhentur hópur: Börnin á Álftanesi láta ekki sitt eftir liggja.

FERMINGARFRÆÐSLA er með ýmsu móti og oft fá fermingarbörnin sjálf skemmtilegar hugmyndir að verkefnum til að vinna að. Þannig var því farið með börnin sem fermast á Álftanesi í vor. Tóku þau sig til og gengu í hús í bæjarfélaginu og söfnuðu fyrir fórnarlömb jarðskjálftanna á Haítí. Greinin birtist í Morgunblaðinu 10.02.2010.

„Hugmyndin kviknaði í landafræðitíma í skólanum,“ sögðu þær Þórhildur Ólöf, Birna Rós og Hugrún Linda. „Hann Svavar kennari var að tala um jarðskjálfta og var að segja okkur frá hörmungunum á Haítí og þá sáum við hvað ástandið var alvarlegt og við fundum virkilega til með fólkinu þar. Þá datt okkur datt í hug að hafa söfnun og stungum upp á því í fermingarfræðslutíma.“

Þær segja prestinn og djáknann hafa tekið mjög vel í hugmyndina og þá fóru hjólin að snúast. „Við höfðum svo samband við Rauða krossinn og þeir lánuðu okkur söfnunarbaukana. Allir í bekknum tóku þátt og við gengum hús úr húsi á öll heimili á Álftanesi. Það var svo vel tekið á móti okkur og við söfnuðum fullt af peningum. Við skorum á aðra skóla eða fermingarhópa að gera slíkt hið sama því að það skiptir svo miklu máli að láta gott af sér leiða og við vonum svo sannarlega að þessi peningur komi að gagni.“