Styður fatlaða og stríðshrjáða í Afganistan

28. mar. 2015

Alberto Cairo er sannkölluð goðsögn í lifanda lífi. Hann hefur varið síðustu 25 árum starfsævi sinnar í Afganistan þar sem yfir 100 þúsund manns hafa notið góðs af endurhæfingarmiðstöð sem hann kom á laggirnar.

Á þessum 25 árum hefur Cairo setið sem fastast í valdatíð Sovétmanna, Najibullah, íslamskra byltingarsinna, Talíbana, Bandaríkjamanna, Hamid Karzai og nú Ashraf Ghani.

Í fyrstu voru fórnarlömb jarðsprengna í fyrirrúmi á endurhæfingarstöðinni en í dag njóta hverjir sem á þurfa að halda aðstoð Cairo og samstarfsmanna hans. Rauði krossinn á Íslandi hefur stutt sálræna og félagslega endurhæfingu, eitthvað sem Cairo telur sjálfur vera ómetanlega þjónustu við sína skjólstæðinga.

Cairo heilsaði upp á Íslendinga í vikunni og hélt fyrirlestra í höfuðstöðvum Össurar, í Háskóla Íslands og auðvitað í húsi Rauða krossins. Hér er hann ásamt sendifulltrúum sem hafa starfað í Afganistan.

Frá vinstri: Steina Ólafsdóttir sjúkraþjálfari, Hólmfríður Garðarsdóttir hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir, Alberto Cairo, Magnús Hartmann Gíslason rafmagnverkfræðingur, Ríkharður Pétursson rafiðnfræðingur og Inga Margrét Róbertsdóttir sjúkraþjálfari.