Neyðarstarf Rauða krossins hafið í Kína og komið vel af stað í Mjanmar

13. maí 2008

Rauði krossinn í Kína hóf fjáröflun í dag vegna jarðskjálftans sem skók landið í gær og hefur þegar borist sem svarar um 1,3 milljörðum íslenskra króna. Alþjóða Rauði krossinn hefur veitt um 19 milljónum króna (250 þúsund svissneskra franka) í neyðaraðstoðina. Það verður metið síðar í vikunni hvort nauðsyn er á alþjóðlegri neyðarbeiðni vegna hamfaranna. 

Skjálftinn mældist 7.8 á Richter og átti upptök sín í Sichuan héraði. Samkvæmt upplýsingum yfirvalda í héraðinu er óttast að 10-12 þúsund manns séu látnir og um 20 þúsund slasaðir.

Sjálfboðaliðar Rauða krossins í Sichuan héraði hófu þegar neyðaraðstoð. Sérfræðingar frá landsskrifstofu Rauða krossins í Kína og Alþjóða Rauða krossins eru nú á hamfarasvæðinu til að meta þörfina á frekari neyðarhjálp. Dreifing á hjálpargögnum, þar sem meðal annars eru tjöld fyrir 500 fjölskyldur, ábreiður fyrir 5 þúsund manns ásamt mat og vatnshreinsitöflum og tækjum, er þegar hafin.

Neyðaraðstoð Rauða krossins í Mjanmar, þar sem fellibylurinn Nargis grandaði tugþúsundum þegar hann reið yfir landið fyrir tæpum tveimur vikum, hefur farið vel af stað. Loftbrú milli Kuala Lumpur, þar sem birgðastöð Alþjóð Rauða krossins í Suðaustur-Asíu er staðsett, og Yangon í Mjanmar hefur verið komið á þar sem flogið er með hjálpargögn daglega. 

Um 27.000 sjálfboðaliðar Rauða krossins í Mjanmar hafa dreift hjálpargögnum til nauðstaddra frá því fellibylurinn reið yfir og veitt skyndihjálp á heilsugæslustöðvum og sjúkrahúsum á hamfarasvæðinu.

Viðbrögð við neyðarbeiðni Alþjóða Rauða krossins sem hljóðaði upp á 450 milljónir króna til að aðstoða um 30.000 manns í sex mánuði hafa verið mjög góð. Búist er við að endurskoðuð beiðni verði send út í lok vikunnar. Rauði kross Íslands hefur sent 20 milljónir íslenskra króna í neyðaraðstoðina með stuðningi almennings, ríkisstjórnar og Pokasjóðs verslunarinnar.

Hér er hægt er að skoða myndir frá Alþjóða Rauða krossinum sem teknar voru á fyrstu dögum eftir fellibylinn.