• Nepal_pokasjodur

Pokasjóður styrkir neyðarsöfnun Félags Nepala á Íslandi

21. maí 2015

Stjórn Pokasjóðs hefur ákveðið að styrkja neyðarsöfnun Félags Nepala á Íslandi um fimm milljónir króna.

Eins og flestum er kunnugt reið risaskjálfti yfir Nepal þann 25. apríl síðastliðinn og annar slíkur þann 12. maí. Ljóst er að hátt í 9000 manns eru látnir og tæplega 20 þúsund eru slasaðir. Enn ríkir neyðarástand í landinu og ekki búist við að breyting verði á í bráð. Nepalskt samfélag er einkar berskjaldað og þörfin fyrir hjálpargögnum og neyðaraðstoð er aðkallandi.

Stjórn Pokasjóðs úthlutar árlega styrktarfé til almannaheilla en áskilur sér rétt til að úthluta fé ef um sérstakar aðstæður er að ræða. Var því borðleggjandi að veita fé til söfnunar Félags Nepala á Íslandi sem hóf neyðarsöfnun strax í kjölfar fyrsta skjálftans. Að sögn Bjarna Finnssonar, formanns stjórnar Pokasjóðs, var einhugur innan sjóðsins með að styrkja málefnið.

„Við í sjórninni vorum sammála um að styrkja söfnun Félags Nepala og vonum að þetta fé komi í góðar þarfir. Það hefur verið erfitt að horfa upp á ástandið í Nepal og við vildum leggja okkar af mörkum.“

Rajendra Bahadur Gurung er varaformaður Félags Nepala á Íslandi. Hann segist einstaklega þakklátur með framlag Pokasjóðs.

„Félagsmenn hafa unnið ötullega að söfnuninni, bæði fyrir bágstadda í Nepal en einnig til að sinna okkar eigin sálgæslu – það skiptir máli að láta hendur standa fram úr ermum. Þessi stuðningur sem við fáum nú frá Pokasjóði er ómetanlegur og við í félaginu erum einstaklega þakklát.“

Félag Nepala á Íslandi starfar með Rauða krossinum á Íslandi og veitir söfnunarfé sínu í gegnum mannúðar- og hjálparstarf Alþjóða Rauða krossins í Nepal.

Félag Nepala á Íslandi tekur á móti frjálsum framlögum: Reikningur söfnunarinnar er: 0133-15-380330, kennitala: 511012-0820

Þá minnir Rauði krossinn á að neyðarsöfnun fyrir Nepal er í fullum gangi. Hægt er að styrkja með því að hringja í símanúmerin 904 1500, 904 2500 og 904 5500. Síðustu fjórir tölustafirnir er gjafaupphæðin sem bætist við næsta símareikning. Einnig er hægt að borga með kreditkorti eða leggja inn á reikning 0342-26-12, kt. 530269-2649.