• Elin_Helga_Nepal2015--4-

Tveir sendifulltrúar til viðbótar fara til Nepal

19. maí 2015

Rauði krossinn á Íslandi hefur sent tvo sendifulltrúa til viðbótar til starfa í Nepal vegna neyðarástands í kjölfar jarðskjálftans í síðasta mánuði; Helgu Pálmadóttur hjúkrunarfræðing og Elínu Jónasdóttir sálfræðing. Ríkharður Már Pétursson rafiðnfræðingur er nú þegar staddur í Nepal.

Elín mun ganga til liðs við teymi sem starfar við að meta þörfina á hjálparstarfi í landinu og kemur til með að leiða alla skipulags- og greiningarvinnu um áfallahjálp og sálrænan stuðning. Hún hefur víðtæka reynslu sem starfsmaður, sjálfboðaliði og sendifulltrúi á vegum Rauða krossins og hefur meðal annars starfað í sérhæfðum neyðarsveitum samtakanna á Haítí, í Filippseyjum og í Sierra Leone.

Helga starfar sem deildarhjúkrunarfræðingur í tjaldsjúkrahúsi norska Rauða krossins í Chautara í norðurhluta Nepal. Þetta er fyrsta sendiför Helgu á vegum Rauða krossins en hún hefur víðtæka menntun og reynslu sem hjúkrunarfræðingur. Sem slíkur hefur hún starfað um árabil á bráðadeild Landspítalans. Hún mun koma til með að starfa með Ríkharði Má, sem var fyrsti sendifulltrúi Rauða krosssins á Íslandi í Nepal.

Við minnum á söfnunarsíma Rauða krossins, en neyðarsöfnun fyrir Nepal er í fullum gangi. 904 1500, 904 2500 og 904 5500. Síðustu fjórir tölustafirnir er gjafaupphæðin sem bætist við næsta símareikning.

Einnig er hægt að borga með kreditkorti eða leggja inn á reikning 0342-26-12, kt. 530269-2649.