• P-NPL0388

Alvogen heldur styrktartónleika fyrir börn í Nepal

22. maí 2015

Lyfjafyrirtækið Alvogen hefur ákveðið að halda styrktartónleika í Hörpu þann 6. júní næstkomandi í samstarfi við Rauða krossinn og UNICEF en samtökin standa nú fyrir neyðarsöfnun til styrktar þolendum jarðskjáltans mikla í Nepal. Alvogen mun bera allan kostnað vegna tónleikanna þannig að aðgangseyrir renni óskertur til samtakanna vegna neyðaraðstoðar sem þau standa fyrir í kjölfar hamfaranna. Stefnt er að því að safna yfir 5 milljónum króna vegna tónleikanna sem renna óskert til Rauða krossins og UNICEF með stuðningi Alvogen. Andvirði miðasölu verður skipt jafnt á milli samtakanna. Jafnframt mun Alvogen leggja 4 milljónir króna í beinum fjárstuðningi til UNICEF fyrir sama málefni. Með stuðningi Alvogen og beinu fjárframlagi er stefnt að því að 9 milljónir króna renni til Rauða krossins og UNICEF vegna neyðaraðstoðar í Nepal.

Milljónir barna í Nepal þurfa á hjálp að halda
7 milljón manns, þar af 2,8 milljónir barna þarfnast neyðaraðstoðar í kjölfar jarðskjálftans og talið er að um ein milljón barna og fjölskyldur þeirra þurfi á brýnni neyðaraðstoð að halda. Mikil eyðilegging hefur orðið á byggingum og innviðum í Nepal. Talið er að yfir 5000 manns hafi látist og óttast er að sú tala fari hækkandi þegar björgunaraðgerðir ná til afskekktari svæða. Víða eru vatns- og matarbirgðir af skornum skammti, og rafmagns- og farsímakerfi liggja einnig niðri á mörgum svæðum. Neyðarástandið gerir börn mjög berskjölduð og takmarkað aðgengi að hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu eykur mjög hættuna á að vatnsbornir sjúkdómar blossi upp.

Retro Stefson, Amabadama og Ylja
Nokkrir af vinsælustu tónlistarmönnum á Íslandi í dag hafa ákveðið að leggja verkefninu lið og munu spila á tónleikunum sem haldnir verða í Silfurbergi í Hörpu þann 6. júní næstkomandi. Retro Stefson, Amabadama og Ylja hafa öll boðað komu sína og búist við að fleiri bætist við á næstu dögum.  Stefnt er að því að selja 1.100 miða á tónleikana og safna þannig 5 milljónum króna. Miðasala mun hefjast á næstu dögum.

Rauði krossinn þakkar Alvogen og tónlistarmönnunum kærlega fyrir stuðninginn!