• Helga-nepal-Laxmi

Ótrúleg saga Laxmi í Chautara

21. maí 2015

Laxmi er 72 ára og býr í litlu þorpi í um 40 mínútna fjarlægð frá Chautara í norðurhluta Nepal, þar sem norski Rauði krossinn starfrækir tjaldsjúkrahús. Þegar fyrri skjálftinn reið yfir þann 25. apríl reyndi hún að hlaupa út úr húsinu sínu en það var um seinan. Húsið féll yfir hana með þeim afleiðingum að vinstri hönd hennar klemmdist. Hún lá í rústunum í fjóra klukkutíma eða uns nágrannar hennar björguðu henni.

Húsið hennar er ónýtt. Í skjálftanum dóu tveir í þorpinu hennar og margir misstu allt sitt. Laxmi er búin að vera á spítalanum frá því hann opnaði og gera þurfti stóra aðgerð á hönd hennar. Á morgun útskrifast hún og fær að fara „heim.“ Hún er gífurlega þakklát fyrir þá hjálp sem hún hefur fengið frá Rauða krossinum.

Helga Pálmadóttir, sendifulltrúi Rauða krossins á Íslandi og hjúkrunarfræðingur í norska tjaldsjúkrahúsinu, fékk góðfúslegt leyfi fyrir að deila sögu hennar og birta þessa mynd.

Rauði krossinn minnir á að neyðarsöfnun fyrir Nepal er í fullum gangi. Hægt er að styrkja með því að hringja í símanúmerin 904 1500, 904 2500 og 904 5500. Síðustu fjórir tölustafirnir er gjafaupphæðin sem bætist við næsta símareikning. Einnig er hægt að borga með kreditkorti eða leggja inn á reikning 0342-26-12, kt. 530269-2649.