• P-NPL0346

Neyðarsöfnun vegna Nepal

27. maí 2015

Þann 25. apríl síðastliðinn skók risajarðskjálfti Nepal. Annar skjálfti reið yfir þann 12. maí. Fórnarlömbin telja hátt í 10 þúsund manns þegar þetta er skrifað. Rúmlega 20 þúsund eru slasaðir og milljónir fjölskyldna hafa misst heimili sín.

Skömmu eftir skjálftann var send út hjálparbeiðni frá Alþjóða Rauða krossinum og hófu landsfélög um allan heim safnanir fyrir hjálparstarfi. Söfnunin á Íslandi hefur gengið vel. Munar þar mikið um stór framlög, til að mynda frá samfélaginu Eve Online á vegum íslenska fyrirtækisins CCP, sem söfnuðu um 14 milljónum króna. Íslenska utanríkisráðuneytið studdi hjálparstarf Rauða krossins um 10 milljónir, auk þess sem 5 milljónir runnu í söfnunina beint úr varasjóðum Rauða krossins á Íslandi. Alls hafa safnast rúmlega 43 milljónir til hjálparstarfsins í Nepal. Um þessar mundir eru þrír sendifulltrúar á hamfarasvæðinu á vegum Rauða krossins á Íslandi.

Einnig ber að minnast á söfnun Félags Nepala á Íslandi, félag sem telur á annað hundrað einstaklinga. Hafa meðlimir þess látið hendur standa fram úr ermum og líta á það sem eigin sálgæslu að aðstoða landa sína hinum megin á hnettinum. Hefur félagið safnað um 9 milljónum króna sem Rauði krossinn sér um að koma til skila. Vonast er til að lokahnykkurinn í þeirra söfnun gangi sem allra best. Um er að ræða nepalskt hádegishlaðborð af bestu gerð, en nepalskir matreiðslumeistarar og þjónustufólk taka yfir eldhúsið á Nauthóli í hádeginu 31. maí. Allir hlutaðeigandi gefa vinnu sína og ágóðinn rennur óskiptur til söfnunar Félags Nepala á Íslandi.

Rauði krossinn minnir á að neyðarsöfnunin er enn í fullum gangi. Hægt er að styrkja með því að hringja í símanúmerin 904 1500, 904 2500 og 904 5500. Síðustu fjórir tölustafirnir er gjafaupphæðin sem bætist við næsta símareikning. Einnig er hægt að borga með kreditkorti eða leggja inn á reikning 0342-26-12, kt. 530269-2649. 

Nepalteymid_mai2015-b