Tombólubörn fljót að bregðast við neyð jafnaldra sinna í Sómalíu

18. ágú. 2011

Yngstu sjálfboðaliðar Rauða krossins, tombólubörnin, fylgjast vel með heimfréttunum og eru fljót að bregðast við til hjálpar börnum sem eiga um sárt að binda annarsstaðar í heiminum. Um leið og fréttir bárust af hungursneyð í Austur Afríku nú í sumar hefur mikill straumur tombólubarna legið til Rauða krossins þar sem beðið er sérstaklega um að framlögin verði nýtt til að kaupa mat fyrir sveltandi börn í Sómalíu.

Hugmyndaauðgi barnanna er svo til ótakmörkuð þegar kemur að fjáröfluninni. Í sumar hafa Rauða krossinum borist meðal annars framlög frá stúlkum á Patreksfirði sem gengu í hús og sungu lagið Lífið er yndislegt fyrir pening, frændur í Reykjavík settu upp ísbúð, krakkar á Höfn í Hornafirði seldu plástur til styrktar börnum í Sómalíu, stúlkur á Kirkjubæjarklaustri seldu nýbakaðar piparkökur, og mæðgur á Akureyri bjuggu til skartgripi og seldu gestum og gangandi.  

Sum börn hafa gefið spariféð sitt, en önnur látið listræna hæfileika njóta sín og skreytt steina, búið til myndir, hálsmen og armbönd úr lopa og boðið til sölu svo eitthvað sé nefnt. Hinar hefðbundnu tombólur eru samt alltaf vinsælastar og skila sínu.

Tombóluvertíðin hófst óvenju snemma í ár því fjöldi barna vildi leggja japönskum jafnöldrum sínum lið þegar hræðilegir jarðskjálftar riðu þar yfir í mars. Rauði kross Íslands bregst jafnan við óskum barnanna um að hjálpa börnum í neyð fyrir tombólupeninginn, og mun því sá peningur sem barst fyrri hluta ársins renna til neyðaraðstoðar í Japan vegna jarðskjálftanna, en framlögin nú í sumar verða nýtt til kaupa á bætiefnaríku hnetusmjöri fyrir vannærð börn í Sómalíu. 

Stuðningur tombólubarna á hverju ári er Rauða krossinum ákaflega mikils virði, og er félagið þakklátt fyrir eljuna og dugnaðinn sem liggur að baki hverri tombólu og fjáröflun þessara yngstu sjálfboðaliða okkar.

Þá hvetur Rauði kross Íslands velunnara sína til að heita á eða hlaupa fyrir Rauða krossinn í Reykjavíkurmaraþoninu nú á laugardaginn. Öll áheit til félagsins munu renna í Sómalíusöfnun Rauða krossins til kaupa á bætiefnaríku hnetusmjöri fyrir vannærð börn.

Áfram verður tekið á móti framlögum í síma Rauða krossins, 904-1500 og þá bætast við 1.500 kr. við næsta símreikning.  Einnig er hægt að styrkja neyðaraðstoð Rauða krossins í Sómalíu með því að greiða inn á reikning hjálparsjóðs í banka 0342, hb. 26, reikn. 12, kt. 530269-2649

Rauði krossinn dreifir matvælum daglega til þúsunda fjölskyldna í Mið- og Suður Sómalíu, þvert á átakalínur meðan stríð geisar þar. Á næstu vikum og mánuðum munu Rauði krossinn og Rauði hálfmáninn veita um 50.000 börnum aðstoð á næringarmiðstöðvum hreyfingarinnar, og dreifa matvælum til um einnar milljónar manna.