Rauði krossinn dreifir matvælum til 162 þúsund manns í Sómalíu

Þórir Guðmundsson

3. ágú. 2011

Rauði krossinn dreifir matvælum til 162 þúsund manns í Sómalíu Alþjóða Rauði krossinn er langt kominn með að dreifa mat til 162.000 manna á hungursvæðum í Mið- og Suður-Sómalíu. Alls er verið að dreifa þrjú þúsund tonnum af hrísgrjónum, baunum og matarolíu sem á að duga fjölskyldu í einn mánuð. Dreifingu er að verða lokið í Gedo (24.000 skjólstæðingar), Neðri Juba (21.000), Mið-Júba (30.000), Bay (15.000), Bakool (12.000) Neðri Shabelle (21.000), Mið-Shabelle (12.000) og á Mogadishu svæðinu (27.000). „Þessi aðgerð sýnir getu Alþjóða Rauða krossins til að dreifa mat beint til fólks sem þjáist af matarskorti í suðurhluta Sómalíu,“ segir Andrea Heath, sem hefur umsjón með dreifingunni fyrir hönd Alþjóða Rauða krossins. „Þetta er hins vegar aðeins lítill hluti af þeirri aðstoð sem nauðsynleg er fram að næstu uppskeru í desember.“ Þurrkarnir í austanverðri Afríku hafa valdið vatnsskorti, uppskerubresti og dýrfelli. Náttúruhamfarirnar bætist við 20 ára ófrið sem hefur valdið miklum hörmungum í Sómalíu. Rauða krossinum hefur tekist að halda úti hjálparstarfi þvert á átakalínur í landinu. Öll framlög almennings til Rauða krossins vegna þurrkanna í Afríku renna til kaupa á vítamínbættu hnetusmjöri, sem Rauði krossinn gefur börnum á næringarstöðvum í Sómalíu. Í síðustu viku sendi Rauði krossinn 50 tonn af hnetusjöri með flugi á hungursvæðin frá Evrópu. Með því að hringja í söfnunarsíma Rauða krossins 904-1500 gefur fólk 1.500 krónur af næsta símreikningi, en sú upphæð nægir til að kaupa hnetusmjör til að hjúkra alvarlega vannærðu barni til heilbrigðis. Einnig er hægt að leggja inn inn á reikning hjálparsjóðs Rauða krossins í banka 0342, hb. 26, reikn. 12, kt. 530269-2649.