Rauði krossinn veitir neyðaraðstoð í Tyrklandi

27. okt. 2011

Rauði kross Íslands hefur opnað fyrir söfnunarsíma sinn 904 1500 vegna jarðskjálftans sem reið yfir Tyrkland síðasta sunnudag.  Þegar hringt er í númerið bætast 1.500 kr. við næsta símreikning. Tugþúsundir Tyrkja sem misstu heimili sín í jarðskjálftanum þurfa á tafarlausri hjálp að halda. Þeir hafast við undir berum himni, og fer hitastig niður fyrir frostmark á nóttunni á þessum slóðum.

Alþjóða Rauði krossinn hefur sent út neyðarbeiðni sem hljóðar upp á 1,3 milljarða íslenskra króna til þess að styrkja neyðaraðstoð Rauða hálfmánans í Tyrklandi. Sjálfboðaliðar og starfsmenn Rauða hálfmánans hafa unnið sleitulaust síðan skjálftinn reið yfir við að bjarga fólki úr rústunum, koma því í skjól og dreifa matvælum til þeirra sem hafast við undir berum himni. 

Að minnsta kosti 500 manns fórust í skjálftanum sem mældist 7.2 á Richter og um 2000 manns slösuðust. Fjölda fólks er enn saknað og þúsundir hafa misst heimili sín. Upptök skjálftans voru í fjalllendi í austurhluta landsins, og hafa hjálparstarfsmenn miklar áhyggjur af fólki sem hefst úti við þar sem mjög kalt er orðið í veðri. Nauðsynlegt er að dreifa byggingarefni og tjöldum sem þola vetrarkulda sem fyrst til þeirra sem lifðu skjálftann af. 

Rauði krossinn áætlar að aðstoða um 50.000 manns. Lögð verður áhersla á að koma þeim sem verst urðu úti í skjálftanum í skjól fyrir veturinn. Teppi, svefnpokar og hlýr klæðnaður eru meðal þeirra hjálpargagna sem dreift verður á næstu dögum og vikum auk byggingarefnis og tjalda.

Tyrkneski Rauði hálfmáninn býr yfir mikilli reynslu af að bregðast við hamförum af þessu tagi og tók þegar til við að dreifa þúsundum tjalda og teppa til nauðstaddra strax á sunnudaginn. Rauði hálfmáninn hefur einnig dreift matvælum, vatni og eldhúsáhöldum, og veitir fólki sálrænan stuðning á staðnum.

Rauði kross Íslands minnir á söfnunarsíma sinn 904 1500. Þegar hringt er í númerið bætast við 1.500 kr. við næsta símreikning. Einnig er hægt er að styrkja hjálparstarf Rauða krossins með því að greiða inn á reikning hjálparsjóðs í banka 0342, hb. 26, reikn. 12, kt. 530269-2649.