Rauði kross Íslands sendir 2200 svefnpoka til Tyrklands

28. okt. 2011

Rauði kross Íslands hefur varið 6 milljónum króna úr neyðarsjóði sínum til kaupa á um 2200 svefnpokum fyrir fórnarlömb jarðskjálftans í Tyrklandi. 

Tugþúsundir manna eru heimilislausir eftir jarðskjálftann sem reið yfir austurhluta landsins síðastliðinn sunnudag.  Vetur eru harðir á þessum slóðum, og því nauðsynlegt að koma sem flestum í skjól í bráðabirgðahúsnæði eða tjöldum sem þola vetrarkulda, en næturfrost herjar nú þegar á fólk sem hefst við undir berum himni. 

Alþjóða Rauði krossinn og Rauði hálfmáninn í Tyrklandi hófust strax handa við að dreifa tjöldum, teppum og svefnpokum. Þessi hjálpargögn eru hluti af neyðarbeiðni sem Rauði krossinn og Rauði hálfmáninn sendu út í gær.

Rauði kross Íslands hefur opnað fyrir söfnunarsíma sinn 904 1500 fyrir fórnarlömb jarðskjálftans.  Þeir sem vilja styðja við hjálparstarf Rauða krossins geta hringt í númerið og þá bætast 1.500 kr. við næsta símreikning eða greitt inn á reikning hjálparsjóðs í banka 0342, hb. 26, reikn. 12, kt. 530269-2649.

Tyrkneski Rauði hálfmáninn býr yfir mikilli reynslu af að bregðast við hamförum af þessu tagi og vinnur við dreifingu á tjöldum, teppum, matvælum, vatni og eldhúsáhöldum til nauðstaddra. Rauði hálfmáninn veitir fólki einnig sálrænan stuðning á staðnum.

Rauði krossinn áætlar að aðstoða um 50.000 manns.  Lögð verður áhersla á að koma þeim sem verst urðu úti í skjálftanum í skjól fyrir veturinn.