50 þúsund manns fá neyðaraðstoð í Sómalíu

30. sep. 2011

Aðstoð Rauða kross Íslands vegna hungursneyðarinnar í Sómalíu nær til 50 þúsund manna og nemur nú alls um 56 milljónum króna, með þeim 20 milljónum sem fengist hafa fyrir sölu á fatnaði sem fólk gefur Rauða krossinum til hjálparstarfsins. Áður höfðu safnast um 36 milljónir króna fyrir Sómalíu.

Fyrir þær 20 milljónir króna sem Fatasöfnun Rauða krossins lagði til hjálparstarfsins í dag er búið að kaupa samtals 200 rúmmetra af hjálpargögnum - hreinlætisvörur, plastdúka til skýlisgerðar, teppi, eldunaráhöld og veiðarfæri. Þetta fyllir sjö gáma sem verða sendir um miðjan október frá birgðastöð í Dubai til Sómalíu.

Auk þess hefur Rauði krossinn fest kaup á bætiefnaríku hnetusmjöri og öðrum neyðarmatvælum fyrir börn fyrir 36 milljónir króna. Fyrir það fé er hægt að hjúkra 20.000 börnum, sem koma alvarlega vannærð á næringarstöð Rauða krossins, til heilbrigðis. Þetta starf fer fram í matardreifingarstöðvum og heilsugæslustöðvum sómalska Rauða hálfmánans um allt land, sem stöðugt er verið að fjölga í því skyni að ná til fleiri barna. Þessa dagana eru 10.000 börn að fá mataraðstoð á þessum stöðvum.

Mikilvægt er að í hjálparstarfinu fari saman neyðarhjálp og aðstoð sem miðar að uppbyggingu til lengri tíma. Alls eru skjólstæðingar Rauða kross Íslands í Sómalíu - fólk sem hægt er að hjálpa fyrir framlög almennings á Íslandi - um 50.000 manns.

Rauði krossinn hvetur almenning til að leggja söfnuninni lið áfram því gífurleg þörf er á aðstoð. Söfnunarsími Rauða krossins er 904-1500. Með því að hringja í hann bætast 1.500 krónur á næsta símreikning. Allt féð fer til hjálparstarfsins í Sómalíu.

Þegar fólk gefur fatnað til Rauða krossins styrkir það neyðaraðstoð bæði hér á landi og erlendis. Fatasöfnun Rauða krossins er mikilvægt fjáröflunarverkefni þar sem um 200 sjálfboðaliðar á ári starfa launalaust við söfnun, flokkun og sölu fatnaðarins. Þeir skiluðu á síðasta ári um 19.000 vinnustundum og reikna má með því að þetta framlag sjálfboðaliðanna sé ekki undir 30 milljóna króna virði.

Stærstu samstarfsaðilar fataverkefnis Rauða krossins eru Sorpa bs. og Eimskip/Flytjandi. Á höfuðborgarsvæðinu er Rauði krossinn í samstarfi við Sorpu um söfnun á fatnaði og eru söfnunargámar á öllum endurvinnslustöðum Sorpu. Eimskip flytur fatagáma félagsins milli landshluta og til útlanda án endurgjalds. Um er að ræða mikilvægan styrk til fatasöfnunarverkefnis Rauða krossins.

Um 200 sjálfboðaliðar vinna launalaust við söfnun, flokkun og sölu fatnaðar á ári hverju.