12. maí 2004 : Viðbrögð við flugslysi æfð á Ísafjarðarflugvelli

 Tuttugu sjálfboðaliðar Rauða kross deilda Ísafjarðar, Bolungarvíkur og Súðavíkur tóku þátt í vettvangsæfingu á vegum Flugmálastjórnar sem haldin var á Ísafirði 8. maí sl. þar sem tvær flugvélar áttu að farast með um 60 manns innanborðs. Allir sem hafa verkskyldum að gegna við flugslys á Ísafirði tóku þátt í æfingunni, alls um tvö hundruð manns, undir styrkri stjórn Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur sýslumanns.

Æft var eftir nýrri flugslysaáætlun fyrir Ísafjarðarflugvöll og viðbrögð og aðgerðir samkvæmt henni. Áætlunin byggir á samræmdu starfsskipulagi fyrir alla neyðaraðila á Íslandi, s.k. SÁBF-kerfi, sem stendur fyrir Stjórnun, Áætlanir, Bjargir, Framkvæmdir. 

Æfðar voru björgunaraðgerðir, björgun á vettvangi þar sem um var að ræða mikið slasaða, minna slasaða, óslasaða og látna og samhæfing aðgerða sem og aðhlynning við aðstandendur og samskipti við fjölmiðla. Á æfingunni reyndi verulega á samhæfingu samstarfsaðila vegna flutnings á slösuðum frá Ísafirði, sem og á boðunarkerfi störf fólks á vettvangi, stjórnun, fjarskipti, rannsóknir og fleira.