14. okt. 2004 : Neyðarvarnir endurskoðaðar á höfuðborgarsvæði

Á svæðisfundi Rauða kross deildanna á höfuðborgarsvæðinu sem haldinn var í gær lýstu deildirnar yfir vilja til að koma á sameiginlegum viðbúnaði vegna neyðarvarna. Formaður Kópavogsdeildar hefur haft forgöngu um að deildirnar hefji undirbúning að samvinnu í þessum efnum og var samþykkt að stofna starfshóp til að gera tillögu um samstarf deildanna í neyðarvörnum.

Á fundinum lét Guðrún Mjöll Sigurðardóttir, Kópavogsdeild, af störfum sem formaður svæðisráðs en í stað hennar kemur Sigrún Jóhannsdóttir, formaður Álftanesdeildar. Fjölmörg samtarfsverkefni deildanna voru rædd á fundinum í gær, svo sem Fjölsmiðjan, fataflokkun, námskeið og fleira.

Á fundinum lýsti Reynir Guðsteinsson fulltrúi Rauða kross deildanna í stjórn Fjölsmiðjunnar starfi hennar undanfarið og nefndi að deildir á höfuðborgarsvæðinu hefðu á þeim þremur árum, sem Fjölsmiðjan hefur starfað, lagt fram tólf milljónir króna til starfsemi hennar. Nú væru 42 nemar í Fjölsmiðjunni.