4. des. 2005 : Viðbragðsstaða vegna Keflavíkurflugvallar

Rauða kross deildir á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu voru í viðbragðsstöðu milli klukkan þrjú og fjögur í dag vegna viðbúnaðar á Keflavíkurflugvelli. Beðið var lendingar tveggja hreyfla farþegaþotu með bilaðan hreyfil. Þotan er í eigu Air Canada, af gerðinni Airbus 330, og var á leið frá Frankfurt í Þýskalandi til Toronto í Kanada þegar bilunar varð vart.

Viðbúnaði var aflétt þegar þotan hafði lent heilu og höldnu klukkan fjögur. Hlutverk Rauða krossins í aðgerðum sem þessum er meðal annars að veita fólki almenna aðhlynningu og sálrænan stuðning.

3. des. 2005 : Neyðarvarnir 2005

21. nóv. 2005 : Ferjuslysaæfing á Seyðisfirði

Einar Hólm fjöldahjálparstjóri Seyðisfjarðardeildar Rauða kross Íslands skipar sínu liði í hlutverk.
Síðasta laugardag, 19. nóvember, var haldin umfangsmikil ferjuslysaæfing á Seyðisfirði. Æft var eftir séráætlun vegna ferjuslyss á Seyðisfirði undir stjórn Ástríðar Grímsdóttur sýslumanns. Æfð var samvinna viðbragðsaðila á vettvangi, fulltrúa í aðgerðastjórn í héraði og áhöfn samhæfingarstöðvarinnar í Reykjavík.

Klukkan 13:14 barst tilkynning frá Neyðarlínunni um að hafin væri æfing þar sem komið hafði upp eldur um borð í ferjunni Sky Princess í höfn á Seyðisfirði og að unnið yrði á Neyðarstigi F1 RAUÐUR. Aðgerðastjórn var virkjuð á Egilsstöðum og vettvangsstjórn almannavarna á Seyðisfirði og en Rauða kross deildirnar á svæðinu eiga fulltrúa í þeim. Samhæfingarstöðin í Reykjavík var virkjuð og Hjálparsíminn 1717.  Opnuð var loftbrú milli Egilsstaða og Reykjavíkur til að flytja aðstoðarlið frá sjúkrahúsum og slökkviliði austur til aðstoðar og til að flytja sjúklinga í aðra landshluta.

3. nóv. 2005 : Samhugur í fólki sem gisti í fjöldahjálparstöðvum Rauða krossins

Slæptur ferðalangur, Árni Guðbjartsson frá Skagaströnd. Guðrún Matthíasdóttir formaður Hvammstangadeildar Rauða krossins í bakgrunni.
Mynd: Karl Sigurgeirsson, Hvammstanga
Fjöldahjálparstöðvar Rauða krossins á Hvammstanga, á Laugarbakka og í Víðihlíð voru opnar frá því á sunnudagskvöld. Um hádegi á þriðjudag fóru þeir síðustu áleiðis norður á bóginn.

Alls gistu um 125 manns á þessum þremur fjöldahjálparstöðvum, fleiri komu við en fengu síðan gistingu hjá vinum og kunningjum. Ekki er vitað með vissu hversu margir tepptust í Húnaþingi vestra í þessum óveðurshvelli.

?Við erum afskaplega þakklát öllu þessu fólki fyrir frábæra samstöðu og samheldni. Það voru allir sem dvöldu í fjöldahjálparstöðvunum mjög jákvæðir og hjálpuðust að við alla hluti, svo sem eldamennsku, barnagæslu og hvaðeina,? sagði Hólmfríður Björnsdóttir hjá Hvammstangadeild Rauða krossins.

30. sep. 2005 : Neyðarvarnir Rauða kross Íslands

Meðfylgjandi skýrsla var lögð fyrir stjórn Rauða kross Íslands í september 2005.

Skýrsla stjórnar

4. júl. 2005 : Rauði krossinn veitir sálrænan stuðning eftir rútuslys

Birna Lind Björnsdóttir starfsmaður Kynnisferða talar við farþega rútunnar.
Rauði krossinn veitti farþegum aðhlynningu eftir að þeir lentu í rútuslysi við Minni Borg í Grímsnesi í dag. Almannavarnadeild Ríkislögreglustjórans virkjaði Rauða krossinn til starfa um kl. 14:30 vegna aðhlynningar farþega rútunnar.

Slysið varð með þeim hætti að pallbíll og rútan rákust á og lést bílstjóri pallbílsins samstundis. Í rútunni voru 42 erlendir ferðamenn auk ökumanns og leiðsögumanns sem voru rétt að hefja skoðunarferð til Gullfoss og Geysis á vegum Kynnisferða.

16. maí 2005 : Æfingar í skyndihjálp búa ástralska sjálfboðaliða undir það versta

Frá æfingunni í Greater Bendigo í síðasta mánuði.
Geater Bendigo er um 100 þúsund manna sveitaþorp staðsett í skóglendi í um tveggja klukkustunda akstursfjarlægð frá Melbourne. Íbúar þorpsins hafa fengið sinn skerf af náttúruhamförum á borð við flóð og skógarelda og kunna að bregðast við þeim á marksvíslegan hátt. Rauða kross deildin á svæðinu hefur lagt sitt af mörkum við að undirbúa þorpsbúa fyrir hamfarir og hefur deildin m.a. haldið æfingar til að þjálfa sjálfboðaliðana fyrir slíkar hamfarir. Á æfingunum eru búnar til aðstæður sem geta skapast þegar hamfarir eiga sér stað.

4. apr. 2005 : Neyðarvarnadagur starfsmanna landsskrifstofu

Starfsmenn landskrifstofunnar kynna sér hlutverk Neyðarlínunnar í Björgunarmiðstöðinni.
Neyðarvarnadagur landsskrifstofu Rauða kross Íslands 2005 var haldinn 1. apríl sl. Þessi dagur er nýttur í fræðslu til starfsmanna til að fara yfir hlutverk landsskrifstofu og starfsmanna í fjöldahjálp og félagslegu hjálparstarfi sem er hlutverk Rauða kross Íslands í almannavarnakerfinu. Í því felst m.a. að styðja Rauða kross deildir í þeirra starfi á neyðartímum sem og í undirbúningi neyðarvarna.

Á landsskrifstofu fer einnig fram úrvinnsla skráningar og upplýsingargjöf til aðstandenda á neyðartímum, aðstoð við húsnæðismál, fjársafnanir og félagslega uppbyggingu eftir áfall.