21. nóv. 2005 : Ferjuslysaæfing á Seyðisfirði

Einar Hólm fjöldahjálparstjóri Seyðisfjarðardeildar Rauða kross Íslands skipar sínu liði í hlutverk.
Síðasta laugardag, 19. nóvember, var haldin umfangsmikil ferjuslysaæfing á Seyðisfirði. Æft var eftir séráætlun vegna ferjuslyss á Seyðisfirði undir stjórn Ástríðar Grímsdóttur sýslumanns. Æfð var samvinna viðbragðsaðila á vettvangi, fulltrúa í aðgerðastjórn í héraði og áhöfn samhæfingarstöðvarinnar í Reykjavík.

Klukkan 13:14 barst tilkynning frá Neyðarlínunni um að hafin væri æfing þar sem komið hafði upp eldur um borð í ferjunni Sky Princess í höfn á Seyðisfirði og að unnið yrði á Neyðarstigi F1 RAUÐUR. Aðgerðastjórn var virkjuð á Egilsstöðum og vettvangsstjórn almannavarna á Seyðisfirði og en Rauða kross deildirnar á svæðinu eiga fulltrúa í þeim. Samhæfingarstöðin í Reykjavík var virkjuð og Hjálparsíminn 1717.  Opnuð var loftbrú milli Egilsstaða og Reykjavíkur til að flytja aðstoðarlið frá sjúkrahúsum og slökkviliði austur til aðstoðar og til að flytja sjúklinga í aðra landshluta.

3. nóv. 2005 : Samhugur í fólki sem gisti í fjöldahjálparstöðvum Rauða krossins

Slæptur ferðalangur, Árni Guðbjartsson frá Skagaströnd. Guðrún Matthíasdóttir formaður Hvammstangadeildar Rauða krossins í bakgrunni.
Mynd: Karl Sigurgeirsson, Hvammstanga
Fjöldahjálparstöðvar Rauða krossins á Hvammstanga, á Laugarbakka og í Víðihlíð voru opnar frá því á sunnudagskvöld. Um hádegi á þriðjudag fóru þeir síðustu áleiðis norður á bóginn.

Alls gistu um 125 manns á þessum þremur fjöldahjálparstöðvum, fleiri komu við en fengu síðan gistingu hjá vinum og kunningjum. Ekki er vitað með vissu hversu margir tepptust í Húnaþingi vestra í þessum óveðurshvelli.

?Við erum afskaplega þakklát öllu þessu fólki fyrir frábæra samstöðu og samheldni. Það voru allir sem dvöldu í fjöldahjálparstöðvunum mjög jákvæðir og hjálpuðust að við alla hluti, svo sem eldamennsku, barnagæslu og hvaðeina,? sagði Hólmfríður Björnsdóttir hjá Hvammstangadeild Rauða krossins.