17. jan. 2006 : Rauði krossinn æfir viðbrögð vegna bruna í fjölbýlishúsi

Sjálfboðaliðar léku íbúa fjölbýlishússins og skráðu sig í fjöldahjálparstöðinni.
Á laugardaginn voru æfð viðbrögð Rauða krossins við aðstoð íbúa sem þurfa að yfirgefa heimili sín vegna bruna í íbúablokk.

Opnuð var fjöldahjálparstöð í Fellaskóla og komu 25 manns í stöðina og veittu fulltrúar Rauða kross deilda á höfuðborgarsvæði almenna umönnun, sálrænan stuðning og skyndihjálp.

Neyðarnefndin var staðsett í Fellaskóla þar sem 15 þjálfaðir fjöldahjálparstjórar voru að störfum auk starfsfólks frá skólanum. Samhliða voru tveir fulltrúar landsskrifstofu Rauða krossins í Samhæfingarstöðinni og æfðu úrvinnslu skráningar og aðra aðstoð vegna aðgerðarinnar.

4. jan. 2006 : Rauði krossinn veitir sálrænan stuðning í Hveragerði

Hús Hjálparsveitarinnar var verulega skemmt og allur útbúnaður ónýtur eftir brunann.
Mynd: Sunnlenska/Guðmundur Karl.

Hveragerðisdeild Rauða kross Íslands brást skjótt við þegar sprengingin varð í flugeldasölunni í Hveragerði á gamlársdag. Grunnskólinn var opnaður og tóku sjálfboðaliðar deildarinnar á móti fólki en þeir sem höfðu verið við afgreiðslu flugeldanna og viðskiptavinir voru skelfingu lostnir eftir þennan ónotalega atburð.

Margt var af ungu fólki í húsinu þegar sprengingin varð og því var þetta einnig erfitt fyrir foreldra þeirra en það var vegna snarræðis að ekki hlaust slys af.