15. feb. 2006 : Opið hús í Björgunarmiðstöðinni Skógarhlíð á 112 daginn

Margir litu við hjá Rauða krossinum og fræddust um starf félagsins innan almannavarnakerfisins.
Þann 11. febrúar síðastliðinn fylktu allir helstu viðbragðsaðilar á höfuðborgarsvæðinu liði í sameiginlegri kynningu á því umfangsmikla björgunar- og neyðarkerfi sem fer í gang þegar fólk í nauðum hringir í Neyðarlínuna 112.

Rauða kross deildir á höfuðborgarsvæðinu voru með tvo kynningarbása á sýningunni. Í öðrum þeirra gafst almenningi kostur á að kynnast nýjum staðli í endurlífgun ásamt því að prófa sjálfvirk hjartastuðtæki. Fjölmargir gestir notuðu tækifærið og reyndu kunnáttu sína í skyndihjálp á kennslubrúðum.

8. feb. 2006 : Fjöldahjálparstjóranámskeið haldin víða um land

Þátttakendur á fjöldahjálparstjóranámskeiði sem haldið var á Akureyri fyrir skemmstu.
Rauði kross Íslands gengst fyrir námskeiðum fyrir verðandi fjöldahjálparstjóra félagsins í öllum landshlutum um þessar mundir, en þeir stýra neyðarvarnavinnu Rauða krossins sem felst meðal annars í að opna fjöldahjálparstöðvar á neyðartímum.

Nýlega voru haldin vel heppnuð námskeið á Akureyri og í Búðardal sem samtals 25 manns sóttu. Fyrirlesarar voru svæðisfulltrúar Rauða krossins auk þess sem gestafyrirlesarar komu frá fjölmiðlum og almannavörnum.