26. nóv. 2007 : Rauði krossinn tekur í notkun tetra tæki

Viðbragðsaðilar neyðarvarna Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu komu saman í síðustu viku til þess að læra á tetra tæki sem Rauði krossinn er að taka í notkun sem hluti af búnaði sínum í neyðarvörnum.

Sérfræðingar frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðis komu á staðinn og kynntu notkun tækjanna. Einnig var tækifærið nýtt til að ræða samstarf Rauða krossins og Slökkviliðsins og farið yfir ferlið frá tilkynningu bruna til Neyðarlínu þar til viðbragðshópur Rauða krossins er kallaður út. Einnig var farið yfir drög að starfsreglum viðbragðshópsins og neyðarkerra neyðarnefndar skoðuð.

18. nóv. 2007 : Rauði krossinn aðstoðar vegna bruna í Fannarfelli

Neyðarlínan leitaði til Rauða krossins snemma í morgun vegna bruna í íbúð við Fannarfell. Óskað var eftir aðstoð við íbúana sem þurftu að yfirgefa íbúðir sínar en fengu skjól í strætisvagni sem þegar kom á staðinn. Tveir voru fluttir á sjúkrahús vegna gruns um reykeitrun.

Þrír sjálfboðaliðar úr viðbragðshópi neyðarnefndar höfuðborgarsvæðis fóru þegar á vettvang. Greiðlega gekk að reykhreinsa og fengu íbúarnir fljótlega að fara til íbúða sinna.

Rauði krossinn fylgdi íbúunum eftir og veitti aðstoð og upplýsingar eftir því sem þurfti og nokkrir þáðu sálrænan stuðning. Aðstoðinni verður fylgt eftir eins og þörf er á.