31. des. 2008 : Rauði krossinn aðstoðar í húsbruna síðustu nótt ársins

Þrír sjálfboðaliðar úr viðbragðhópi Rauða krossins veittu íbúum í fjölbýlishúsi við Fannborg í Kópavogi aðhlyningu þegar eldur kom upp í einni íbúðinni í nótt.

30. okt. 2008 : Nýir fjöldahjálparstjórar á höfuðborgarsvæðinu

Fjöldahjálparstjóranámskeið fyrir deildir Rauða krossins á höfuðborgarsvæði var haldið í vikunni með þátttöku flestra deilda svæðisins. Bætast þeir á lista fólks sem er tilbúið að vera til taks ef til almannavarnaástands kemur.

Á námskeiðinu var farið yfir hlutverk Rauða krossins á neyðarstundu, fjöldahjálp, samskipti við fjölmiðla og fleira. Æfð var opnun fjöldahjálparstöðvar í húsnæði Hafnarfjarðardeildar. Gulum borðum og skiltum var stillt upp á tilheyrandi stöðum. Námskeiðið gekk mjög vel og tóku þáttakendur virkan og góðan þátt.

Þeim sem vilja kynna sér verkefni Rauða krossins í neyðarvörnum á höfuðborgarsvæðinu er bent á hafa samband við Þóru Kristínu Ásgeirsdóttur svæðisfulltrúa í síma 565 2425 eða netfangið [email protected].

27. okt. 2008 : Fjöldahjálparstjóranámskeið í Grindavíkurdeild

Á dögunum var haldið námskeið fyrir fjöldahjálparstjóra í Grindavík en nokkur tími er síðan slíkt námskeið var haldið hjá deildinni. Á námskeiðinu er meðal annars farið yfir skipulag almannavarna og hver þáttur Rauða krossins er í því, fyrirlestur um fjöldahjálp, auk þess sem æfð er skráning og opnum fjöldahjálparstöðvar

Námskeiðið, sem haldið var í húsnæði Grunnskólans, sem er skilgreind fjöldahjálparstöð, var vel sótt af heimamönnum. Þátttakendur voru áhugasamir og tóku virkan þátt í verkefnum og æfingum sem lagðar voru fyrir. Í tengslum við námskeiðið hefur verið unnið að uppfærslu neyðarvarnaáætlunar Grindavíkurdeildar og er því verki nú að mestu lokið.

24. okt. 2008 : Útkall vegna flugfarþega

Eins og fram hefur komið i fréttum var aftakaveður á sunnanverðu landinu í gærkvöldi og nótt sem leið. Hafði þetta þau áhrif á millilandaflug að ekki var hægt að lenda í Keflavík og þurftu því þrjár vélar að lenda á Egilsstöðum og tvær á Akureyri.
Í flugstöðinni á Akureyri var ansi þröngt á þingi meðan verið var að finna út úr hvernig hægt væri að koma farþegunum fyrir yfir nóttina.
 

22. okt. 2008 : Rauði krossinn æfði opnun fjöldahjálparstöðvar á Akranesi

Umfangsmikil eldvarnaræfing var haldin á Sjúkrahúsinu á Akranesi þann 17. október. Að æfingunni stóðu auk Akranesdeildar Rauða krossins, starfsfólk Sjúkrahússins, Almannavarnanefnd Akraness, Lögregla, Slökkvilið, Björgunarfélag Akraness, starfsfólk Brekkubæjarskóla og sjúkraflutningamenn.
 
Æfingin gekk út á að upp kom eldur í sjúkrahúsinu og þurfti að rýma þrjár deildir. Rauði krossinn opnaði fjöldahjálparstöð í Brekkubæjarskóla og voru 25 sjúklingar, sængurkonur og nýburi flutt þangað.

Milli 70 og 80 manns komu að æfingunni með einum eða öðrum hætti og þótti hún takast með ágætum. Hlutverk Akranesdeildar Rauða krossins var opnun og starfræksla fjöldahjálparstöðvarinnar. Mikið gekk á í fjöldahjálparstöðinni við móttöku „sjúklinga” en fljótt og vel gekk að koma hverjum á sinn stað til aðhlynningar. Þegar mest gekk á má reikna með að milli 50 og 60 manns hafi verið í móttökusal fjöldahjálparstöðvarinnar.

21. okt. 2008 : Flugslysaæfing á Þingeyri

Deildir Rauða krossins á Vestfjörðum tóku þátt í flugslysaæfingu á Þingeyri á laugardaginn. Æft var slys þar sem farþegaflugvél með 24 farþegum fórst í lendingu á flugvellinum.

Sjálfboðaliðar Dýrafjarðardeildar sinntu slösuðum á svokölluðu söfnunarsvæði slasaðra sem sett var upp í flugstöðinni á Dýrafjarðarflugvelli, ásamt björgunarsveitarfólki og prestinum á staðnum. Sjálfboðaliðar annarra deilda á norðanverðum Vestfjörðum settu hins vegar upp söfnunarsvæði aðstandenda í grunnskóla Ísafjarðar.

20. okt. 2008 : Rauði krossinn veitti neyðaraðstoð vegna bruna í Breiðholti

Viðbragðshópur Rauða krossins var kallaður út af Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins klukkan 3.42 aðfararnótt sunnudagsins vegna bruna í fjölbýlishúsi í Vesturbergi í Reykjavík. Sjálfboðaliðar hópsins komu hjólhýsi Rauða krossins á staðinn og gátu þolendur dvalið þar meðan á slökkvistarfi og reykræstingu stóð.

22. sep. 2008 : Sjálfboðaliðar Rauða krossins tóku þátt í hópslysaæfingu LSH

Á laugardaginn var haldin hópslysaæfing á Landspítala háskólasjúkrahúsi þar sem æfð var móttaka mikils fjölda sjúklinga. Vel á sjötta tug sjálfboðaliða frá Lögregluskólanum, björgunarsveitum og skátunum mættu galvaskir í Björgunarmiðstöðina Skógarhlíð eldsnemma morguns og voru þar farðaðir og settir í hlutverk af sjálfboðaliðum skyndihjálparhóps Reykjavíkurdeildar Rauða krossins. Að því loknu var leikurunum ekið með sjúkrabílum á spítalann.

Auk förðunarinnar sáu Rauða kross sjálfboðaliðar um eftirlit með leikurum á sjúkrahúsinu og sáu til þess að allir kæmust aftur niður í Skógarhlíð að æfingu lokinni.

Verkefnisstjóra skyndihjálpar á landsskrifstofu Rauða krossins var boðið að vera sérstakur gestur LSH á æfingunni og bakvakt landsskrifstofu var í reglulegu sambandi við viðbragðsnefnd spítalans varðandi áfallahjálp og túlkaþjónustu.

21. ágú. 2008 : Rauði krossinn veitir áfallahjálp í Hellisheiðarvirkjun

Óskað var eftir áfallahjálp hjá Rauða krossinum í gærkvöldi eftir að tveir rúmenskir starfsmenn Hellisheiðarvirkjunar létust í vinnuslysi.

11. ágú. 2008 : Rauði krossinn veitti 30 ferðamönnum áfallahjálp eftir umferðaslys

Rauði krossinn veitti  áfallahjálp 30 rútufarþegum sem lentu í hörðum árekstri á Suðurlandsveginum á 10. tímanum í morgun. Flestir farþegarnir voru erlendir ferðamenn, en einnig var hópur Íslendinga um borð í rútunni.

Viðbragðshópur Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu og starfsmenn veittu farþegunum sálrænan stuðning. Tekið var á móti hópnum á landskrifstofu Rauða krossins að Efstaleiti 9 þar sem farþegar fengu veitingar og viðurgjörning.

Rauði krossinn útvegaði túlka á ítölsku, portúgölsku, þýsku og ensku til að aðstoða ferðafólkið og hlúa að því. Fjórir voru fluttir á slysadeild til frekari aðhlynningar vegna minniháttar meiðsla.

1. jún. 2008 : Rauði krossinn verður með vakt í kvöld á skjálftasvæðinu

Rauði krossinn verður með vakt í Hveragerði og á Selfossi eftir lokun þjónustumiðstöðva í kvöld, sunnudag. Fólki er einnig bent á að hringja í Hjálparsíma Rauða krossins 1717 til að leita sér upplýsinga og aðstoðar. Hjálparsíminn er opinn allan sólarhringinn og er gjaldfrjáls.

Í Hveragerði verða sjálfboðaliðar við í húsnæði Rauða krossins í Austurmörk frá klukkan 19:00 í kvöld til miðnættis. Þá verða sjálfboðaliðar á vakt á Selfossi í húsnæði Rauða krossins að Eyrarvegi 23 frá klukkan 19:00 til miðnættis.

Áfallahjálparteymi Rauða krossins verður að störfum í þjónustumiðstöðvunum á Selfossi og í Hveragerði næstu daga frá klukkan 17:00 til 20:00. Borgarafundir verða haldnir í dag í Sunnulækjarskóla á Selfossi klukkan 17:00 og í félagsheimilinu Stað á Eyrarbakka klukkan 20:30.

31. maí 2008 : Rauði krossinn stendur áfram sólarhringsvakt á skjálftasvæðinu

Rauði krossinn verður með vakt í Hveragerði og á Selfossi eftir lokun þjónustumiðstöðva þar í kvöld, og fram til hádegis á morgun.  Fólki er einnig bent á að hringja í Hjálparsíma Rauða krossins 1717 til að leita sér upplýsinga og aðstoðar.

Í Hveragerði verða sjálfboðaliðar við í húsnæði Rauða krossins í Austurmörk frá kl. 18:00 í kvöld og getur fólk leitað þangað eftir lokun þjónustumiðstöðvar sem er í sama húsi.

Þá verða sjálfboðaliðar á vakt á Selfossi í húsnæði Rauða krossins að Eyravegi 23 frá kl. 19:00 í kvöld og fram á hádegi á morgun sunnudag þegar þjónustumiðstöðin í Tryggvaskála opnar aftur.

30. maí 2008 : Sálrænn stuðningur á skjálftasvæðunum

Viðbrögð við alvarlegum atburðum eru einstaklingsbundin. Þess vegna er mikilvægt að sýna öðrum umburðarlyndi, skilning  og svigrúm til að takast á við áfallið á sinn hátt.

30. maí 2008 : Fjöldahjálparstöðvar Rauða krossins opnar í nótt

Sjálfboðaliðar Rauða krossins munu áfram standa vaktir í nótt og á morgun í fjöldahjálparstöðvum til að veita aðstoð á jarðskjálftasvæðunum.

 

30. maí 2008 : Aðstoð Rauða krossins rædd við sveitarfélög á skjálftasvæðinu

Rauði krossinn mun ræða við fulltrúa sveitarfélaga í Hveragerði og á Selfossi um frekari aðstoð Rauða krossins á næstu dögum og vikum.

30. maí 2008 : Sjálfboðaliðar Rauða krossins stóðu vaktina í nótt

Tuttugu manns, sem ekki treysti sér til að sofa í húsum sínum gistu í fjöldahjálparstöðvum Rauða krossins á Selfossi og í Hveragerði í nótt.

30. maí 2008 : Áfallateymi Rauða krossins heldur fundi fyrir íbúa á Suðurlandi nú eftir hádegið

Á Selfossi hefst fundurinn kl. 12:30 í fjöldahjálparhjálparstöð Rauða krossins í Vallarskóla.  Þar verða einnig fulltrúar frá bæjaryfirvöldum til að ræða við íbúana.

29. maí 2008 : Rauði krossinn virkjar fjöldahjálparstöðvar og Hjálparsímann 1717

Rauði kross Íslands hefur virkjað neyðarvarnarkerfi sitt og opnað fjöldahjálparstöðvar í Hveragerði og Selfossi.  Þá hefur Hjálparsíminn 1717 verið opnaður fyrir aðstandendur sem vilja spyrjast fyrir um afdrif skyldmenna.

Fjöldahjálparstöð Rauða krossins á Selfossi er í Vallarskóla, og er fólk beðið um að fara þangað.  Því er bent á að vera vel klætt og taka með sér teppi ef möguleiki er á því að það kólnar með kvöldinu.

Rauði krossinn biður einnig sjálfboðaliða í Árnesingadeild að koma til aðstoðar í fjöldahjálparstöðina í Vallaskóla.

Í Hveragerði hefur verið opnuð fjöldahjálparstöð við íþróttamiðstöðina, þar sem fólk verður aðstoðað í tjöldum.  Viðbragðshópur af höfuðborgarsvæðinu hefur einnig verið virkjaður í Hveragerði, þar sem hjólhýsi Rauða krossins verður notað við fjöldahjálpina við íþróttamiðstöðina.

Þá hefur Rauði krossinn í Hveragerði beðið fólk sem vill aðstoða um að bjóða fram krafta sína.

29. maí 2008 : Hundruð sjálfboðaliða Rauða krossins að störfum

Rauði krossinn hefur opnað fjöldahjálparstöðvar á eftirfarandi stöðum:  Vallarskóla á Selfossi, við íþróttamiðstöðina í Hveragerði, grunnskólanum í Þorlákshöfn, safnaðarheimilu á Hellu, grunnskólanum á Hvolsvelli, grunnskólanum á Stokkseyri og í Þykkvabæ.

Um 100 sjálfboðaliðar Rauða krossins af höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum eru nú á leið til þessara staða til að aðstoða sjálfboðaliða á svæðinu við skráningu fólks, aðhlynningu og til að veita sálrænan stuðning.  Fólki er einnig veitt hressing og matur eftir föngum

Í Hveragerði sjá sjálfboðaliðar Rauða krossins um að elda mat fyrir þá sem vilja, og er öllum bent á að fara að íþróttamiðstöðinni.

Áfallateymi Rauða krossins er nú að störfum á vettvangi.  Þá eru tveir túlkar í fjöldahjálparstöðinni á Selfossi, einn pólskur og hinn rússneskur.

Rauði krossinn er einnig viðbúinn að taka við fólki hér á höfuðborgarsvæðinu sem ekki kemst í húsaskjól hjá ættingjum og vinum, og verður fjöldahjálparstöð opnuð í Menntaskólanum í Hamrahlíð ef þörf er á.

Hjálparsíminn 1717 sér einnig um að koma upplýsingum til aðstandenda, og er fólki bent á að hringja í leitarþjónustu Rauða krossins í 1717.

29. maí 2008 : Fjöldahjálparstöðvar opnar í Hveragerði og á Selfossi í nótt

Fjöldahjálparstöðvar Rauða krossins verða opnar í Hveragerði og á Selfossi í nótt. Lítil ásókn hefur verið í fjöldahjálparstöðvarnar í nágrannabæjunum, og hefur því verið ákveðið að loka á Hvolsvelli, Hellu, Þykkvabæ, Stokkseyri og Eyrarbakka fyrir miðnætti.

Ekki reyndist þörf á að opna fjöldahjálparstöð í Menntaskólanum í Hamrahlíð. Þeim, sem ekki vilja dvelja á skjálftasvæðunum í nótt og hafa ekki í önnur hús að venda í Reykjavík, er þó bent á að hafa samband við fjöldahjálparstöðvar Rauða krossins í Vallarskóla á Selfossi og við íþróttamiðstöðina í Hveragerði því fjölmargir hafa sett sig í samband við Rauða krossinn og boðið húsnæði fyirr þá sem þurfa. Frekari upplýsingar um það liggja fyrir hjá Rauða krossinum á Selfossi og Hveragerði.

29. maí 2008 : Rauði krossinn stendur vaktina í Hveragerði, á Selfossi og í Hjálparsímanum 1717

Rauði krossinn heldur áfram að veita aðstoð þeim sem urðu illa úti í jarðskjálftanum á Suðurlandi.  Sjálfboðaliðar Rauða krossins standa vaktina í nótt í fjöldahjálparstöðvum Rauða krossins við íþróttamiðstöðina í Hveragerði og í Vallarskóla á Selfossi.

Fjöldahjálparstjóri Rauða krossins á Selfossi vildi beina þeim upplýsingum til Selfyssinga sem skortir drykkjarvatn að um 6.000 lítrar af vatni séu nú í boði í Vallarskóla og geta þeir sem vilja sótt þangað vatn.

Fólk sem vantar upplýsingar eða þarf á gistingu að halda í Reykjavík er bent á að hafa samband við Hjálparsímann 1717 sem verður opinn í alla nótt, að venju.

29. apr. 2008 : Flugslysaæfing í Vestmannaeyjum

Rauði krossinn tók þátt í flugslysaæfingu í Vestmannaeyjum ásamt öðrum viðbragðsaðilum sem að neyðarhjálp og almannavörnum koma. Æfingin fór fram um síðustu helgi.

 

27. apr. 2008 : Fjölmennt lið frá Rauða krossinum aðstoðar vegna elds í dvalarheimili

Viðbragðsteymi Rauða krossins var kallað út vegna elds sem kom upp í íbúð að Dalbraut 27 í Reykjavík síðdegis í dag.

23. apr. 2008 : Fjöldahjálparstjórar hittast

Fjöldahjálparstjórar Akureyrar- og Dalvíkurdeilda hittust á dögunum og fóru yfir málefni neyðarvarna. Sameiginleg neyðarvarnaáætlun deildanna var lesin yfir.

Síðan var keyrð svo kölluð skrifborðsæfing þar sem ímyndað rútuslys á Melrakkasléttu var viðfangsefnið. Notast var við nýlegan leik þar sem leikmunir eru uppteiknaður slysavettvangur, leikfangabílar og tæki.

Þótti mönnum þeir fá ágæta yfirsýn yfir hvernig hlutirnir gætu gengið fyrir sig í raunveruleikanum og hvernig almannavarnakerfið virkar. Þetta var auk þess hin besta skemmtun og ágæt leið til að hrista hópinn saman.

5. apr. 2008 : Viðbrögð fjöldahjálpar æfð í Menntaskólanum við Hamrahlíð

Í dag var haldin fjöldahjálparæfing í Menntaskólanum við Hamrahlíð. Sjálfboðaliðar Rauða krossins, starfsfólk skólans og lögreglan æfðu móttöku íbúa úr tveimur fjölbýlishúsum sem átti að hafa kviknað í.

Sjálfboðaliðar léku hlutverk þolenda, blaðamanna og sjónvarpsmanna og sköpuðu margs konar áreiti sem hjálparliðið þurfti að leysa úr.

Æfingar af þessu tagi eru ómetanlegar til að tryggja það að sjálfboðaliðar Rauða krossins og stuðningsaðilar séu ávallt tilbúnir að opna fjöldahjálparstöðvar og taka á móti hópum þolenda vegna bruna, náttúruhamfara og hópslysa svo fátt eitt sé nefnt. Menntaskólinn við Hamrahlíð er ein 14 fjöldahjálparstöðva á höfuðborgarsvæðinu.

17. mar. 2008 : Veittu sálrænan stuðning í kjölfar eldsvoða

Viðbragðshópur Rauða krossins var kallaður út í gærmorgun vegna elds í fjölbýlishúsi í Hrafnhólum í Breiðholti. Allt tiltækt lið Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu var kallað út.

Eldurinn kviknaði í íbúð á annarri hæð en húsið er átta hæða með um fimmtíu íbúðir og hátt í tvö hundruð íbúa. Greiðlega gekk að slökkva eldinn og varð engum íbúa meint af.

Sjálfboðaliðar Rauða krossins veittu íbúum í húsinu sálrænan stuðning þar sem mörgum hafði brugðið þegar eldsins varð vart.

Íbúðin þar sem eldurinn kviknaði var mannlaus og rannsakar lögreglan eldsupptök.

5. mar. 2008 : Fjöldahjálparstjórar á Norðurlandi æfa hópslys

Námskeið fyrir fjöldahjálparstjóra var haldið í safnaðarheimilinu á Sauðárkróki síðastliðinn laugardag. 24 þátttakendur víðsvegar af Norðurlandi hlýddu á fyrirlestra og fóru í verklegar hópslysaæfingar.

Í upphafi námskeiðsins var farið í æfingu sem gengur út á að þátttakendur raða sér upp í hlutverk sem þarf að sinna samkvæmt SÁBF kerfinu. Gekk æfingin út á að rúta hafði oltið og þurftu allir sem á námskeiðinu voru að setja sig í þær aðstæður að um neyðartilfelli væri að ræða. Skemmst er að segja frá því að allt gekk upp þó mikill hamagangur væri á tímabili við að koma slösuðum á viðeigandi staði.

28. feb. 2008 : Starfsmenn landsskrifstofu Rauða krossins æfa neyðarviðbrögð

Í dag fer fram umfangsmikil neyðarvarnaræfing á landsskrifstofu Rauða krossins þar sem starfsmenn æfa viðbrögð við neyð. Öll starfssvæði landsskrifstofu verða virkjuð samkvæmt viðbragðsáætlun landsskrifstofunnar ef undan er skilið símaver Hjálparsímans, 1717. Einnig verða deildir Árnessýslu virkjaðar eins og um raunverulega neyð væri að ræða.

 

Æfingin tekur mið af því að tvær rútur lenda saman í uppsveitum Árnessýslu. Fjölmargir farþegar eru í rútunum, bæði innlendir og erlendir, og slasast margir, misalvarlega.

25. feb. 2008 : Fjöldahjálparstjórum fjölgar á Ströndum

Námskeið fyrir fjöldahjálparstjóra var haldið í grunnskólanum á Hólmavík á laugardaginn. Þátttakendurnir, átta að tölu, komu frá Hólmavík og Drangsnesi og var helmingur þeirra að sækja námskeið sem þetta í fyrsta sinn en aðrir að endurnýja réttindi sín.
 
Námskeiðið samanstóð af fyrirlestrum, verklegum æfingum og umræðum. Æfðu þátttakendur sig í viðbrögðum við hópslysi og að opna fjöldahjálparstöð í skólanum, sem jafnframt er ein af fjöldahjálparstöðvum deildarinnar en þær eru alls sjö, enda starfssvæði deildarinnar stórt. Það nær frá Bæjarhreppi norður allar Strandir og inní Ísafjarðardjúp.

29. jan. 2008 : Námskeið fyrir fjöldahjálparstjóra

Námskeið fyrir fjöldahjálparstjóra var haldið í húsnæði Suðurnesjadeildar Rauða krossins síðastliðinn laugardag. Þrátt fyrir slæmt veður og vonda færð var góð þátttaka.

 

18. jan. 2008 : Skagafjarðardeild bregst við vegna bruna á Kaffi Krók

Skagafjarðardeild Rauða krossins var kölluð út af Brunavörnum Skagafjarðar um klukkan 1:30 í nótt vegna bruna á Kaffi Krók. Tveir sjálfboðaliðar deildarinnar voru mættir í húsnæði deildarinnar, sem er við hlið Kaffi Króks, tveimur mínútum síðar. Húsið var opið fyrir slökkviliðsmönnum og öðrum sem á þurftu að halda.
 
Stanslaus umferð fólks var fram yfir klukkan 5 þegar slökkvistarfi var formlega hætt.

Neyðarskipulag deildarinnar virkaði vel. Auðveldlega gekk að útvega nauðsynjar þar sem N1 og Bakarí Sauðárkróks brugðust vel við  þegar leitað var til þeirra.

8. jan. 2008 : Þriðja útkallið á þremur dögum

Viðbragðshópur Rauða krossins veitti íbúum í fjölbýlishúsi í Jórufelli aðstoð vegna elds sem kom upp í hjólageymslu í sameign á jarðhæð

7. jan. 2008 : Rauði krossinn aðstoðar vegna húsbruna í Tunguseli

Neyðarlínan leitaði til Rauða krossins klukkan sex í morgun vegna bruna í blokk í Tunguseli. Einn maður lést og nokkrir voru fluttir á slysadeild

6. jan. 2008 : Aðstoð vegna húsbruna á Neshaga

Rauði krossinn brást við beiðni Neyðarlínunnar klukkan 1:30 í nótt um að aðstoða fjölskyldu á Neshaga eftir að íbúð þeirra skemmdist þegar eldur kom upp í nærliggjandi íbúð. Tveir sjálfboðaliðar úr viðbragðshópi höfuðborgarsvæðis fóru á vettvang. Fólkinu var komið fyrir á hóteli og veittur sárænn stuðningur. Sjálfboðaliðarnir munu hitta fjölskylduna á morgun og fylgja henni heim til sín.

2. jan. 2008 : Áætlanagerð vegna inflúensufaraldurs

Þann 10. desember síðastliðinn stóðu almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og landlæknisembættið fyrir skrifborðsæfingu um viðbrögð vegna inflúensufaraldurs. Áætlanagerð hefur staðið yfir í tvö ár og er þetta umfangsmesta viðbragðsáætlun sem unnin hefur verið hér á landi. Ýmsir aðilar hafa komið að málum svo sem Rauði kross Íslands sem hefur m.a. tekið þátt í vinnuhópum um sjúkraflutninga, dreifingu nauðsynja og nú síðast í nýstofnuðum vinnuhópi um inflúensusíma.

 

Rauði krossinn tók ekki beinan þátt í æfingunni, heldur fylgdust fulltrúar hans með henni sem áhorfendur, enda var markmið æfingarinnar fyrst og fremst að æfa samskipti milli lögregluembætta og sóttvarnaumdæma. 15 aðgerðastjórnir voru að störfum um allt land, auk þess sem starfsmenn ríkislögreglustjóra og landlæknisembættisins stóðu vaktina í Samhæfingarstöðinni í Skógarhlíð. Æfð voru drög að landsáætlun en í kjölfarið munu sóttvarnasvæðin gera ítarlegri áætlanir sem Rauða kross deildir munu væntanlega koma frekar að.