28. feb. 2008 : Starfsmenn landsskrifstofu Rauða krossins æfa neyðarviðbrögð

Í dag fer fram umfangsmikil neyðarvarnaræfing á landsskrifstofu Rauða krossins þar sem starfsmenn æfa viðbrögð við neyð. Öll starfssvæði landsskrifstofu verða virkjuð samkvæmt viðbragðsáætlun landsskrifstofunnar ef undan er skilið símaver Hjálparsímans, 1717. Einnig verða deildir Árnessýslu virkjaðar eins og um raunverulega neyð væri að ræða.

 

Æfingin tekur mið af því að tvær rútur lenda saman í uppsveitum Árnessýslu. Fjölmargir farþegar eru í rútunum, bæði innlendir og erlendir, og slasast margir, misalvarlega.

25. feb. 2008 : Fjöldahjálparstjórum fjölgar á Ströndum

Námskeið fyrir fjöldahjálparstjóra var haldið í grunnskólanum á Hólmavík á laugardaginn. Þátttakendurnir, átta að tölu, komu frá Hólmavík og Drangsnesi og var helmingur þeirra að sækja námskeið sem þetta í fyrsta sinn en aðrir að endurnýja réttindi sín.
 
Námskeiðið samanstóð af fyrirlestrum, verklegum æfingum og umræðum. Æfðu þátttakendur sig í viðbrögðum við hópslysi og að opna fjöldahjálparstöð í skólanum, sem jafnframt er ein af fjöldahjálparstöðvum deildarinnar en þær eru alls sjö, enda starfssvæði deildarinnar stórt. Það nær frá Bæjarhreppi norður allar Strandir og inní Ísafjarðardjúp.