29. apr. 2008 : Flugslysaæfing í Vestmannaeyjum

Rauði krossinn tók þátt í flugslysaæfingu í Vestmannaeyjum ásamt öðrum viðbragðsaðilum sem að neyðarhjálp og almannavörnum koma. Æfingin fór fram um síðustu helgi.

 

27. apr. 2008 : Fjölmennt lið frá Rauða krossinum aðstoðar vegna elds í dvalarheimili

Viðbragðsteymi Rauða krossins var kallað út vegna elds sem kom upp í íbúð að Dalbraut 27 í Reykjavík síðdegis í dag.

23. apr. 2008 : Fjöldahjálparstjórar hittast

Fjöldahjálparstjórar Akureyrar- og Dalvíkurdeilda hittust á dögunum og fóru yfir málefni neyðarvarna. Sameiginleg neyðarvarnaáætlun deildanna var lesin yfir.

Síðan var keyrð svo kölluð skrifborðsæfing þar sem ímyndað rútuslys á Melrakkasléttu var viðfangsefnið. Notast var við nýlegan leik þar sem leikmunir eru uppteiknaður slysavettvangur, leikfangabílar og tæki.

Þótti mönnum þeir fá ágæta yfirsýn yfir hvernig hlutirnir gætu gengið fyrir sig í raunveruleikanum og hvernig almannavarnakerfið virkar. Þetta var auk þess hin besta skemmtun og ágæt leið til að hrista hópinn saman.

5. apr. 2008 : Viðbrögð fjöldahjálpar æfð í Menntaskólanum við Hamrahlíð

Í dag var haldin fjöldahjálparæfing í Menntaskólanum við Hamrahlíð. Sjálfboðaliðar Rauða krossins, starfsfólk skólans og lögreglan æfðu móttöku íbúa úr tveimur fjölbýlishúsum sem átti að hafa kviknað í.

Sjálfboðaliðar léku hlutverk þolenda, blaðamanna og sjónvarpsmanna og sköpuðu margs konar áreiti sem hjálparliðið þurfti að leysa úr.

Æfingar af þessu tagi eru ómetanlegar til að tryggja það að sjálfboðaliðar Rauða krossins og stuðningsaðilar séu ávallt tilbúnir að opna fjöldahjálparstöðvar og taka á móti hópum þolenda vegna bruna, náttúruhamfara og hópslysa svo fátt eitt sé nefnt. Menntaskólinn við Hamrahlíð er ein 14 fjöldahjálparstöðva á höfuðborgarsvæðinu.