22. sep. 2008 : Sjálfboðaliðar Rauða krossins tóku þátt í hópslysaæfingu LSH

Á laugardaginn var haldin hópslysaæfing á Landspítala háskólasjúkrahúsi þar sem æfð var móttaka mikils fjölda sjúklinga. Vel á sjötta tug sjálfboðaliða frá Lögregluskólanum, björgunarsveitum og skátunum mættu galvaskir í Björgunarmiðstöðina Skógarhlíð eldsnemma morguns og voru þar farðaðir og settir í hlutverk af sjálfboðaliðum skyndihjálparhóps Reykjavíkurdeildar Rauða krossins. Að því loknu var leikurunum ekið með sjúkrabílum á spítalann.

Auk förðunarinnar sáu Rauða kross sjálfboðaliðar um eftirlit með leikurum á sjúkrahúsinu og sáu til þess að allir kæmust aftur niður í Skógarhlíð að æfingu lokinni.

Verkefnisstjóra skyndihjálpar á landsskrifstofu Rauða krossins var boðið að vera sérstakur gestur LSH á æfingunni og bakvakt landsskrifstofu var í reglulegu sambandi við viðbragðsnefnd spítalans varðandi áfallahjálp og túlkaþjónustu.