12. des. 2009 : Rauði krossinn aðstoðar vegna bruna í Fossvogi

Viðbragðshópur Rauða krossins var kallaður út á 11. tímanum í kvöld vegna bruna í fjölbýlishúsi í Fossvogi. Einni fjölskyldu var komið í gistingu á gistihúsi og er henni boðin aðstoð ef á þarf að halda næstu daga.

11. des. 2009 : Rauði krossinn aðstoðar vegna húsbruna í Borgarnesi

Borgarfjarðardeild Rauða krossins var kölluð út til aðstoðar í gærkvöldi þegar eldur kom upp í fjölbýlishúsi í Borgarnesi.

16. nóv. 2009 : Fjöldahjálparstjóranámskeið fyrir norðan

Námskeið fyrir fjöldahjálparstjóra var haldið í Víðihlíð í Húnaþingi vestra um síðustu helgi. Sóttu það fimmtán manns frá Rauða kross deildunum þremur í Húnavatnssýslum.
 
Meirihluti þátttakenda var að sækja slíkt námskeið í fyrsta sinn en aðrir að endurnýja réttindi sín sem fjöldahjálparstjórar. Nýir sjálfboðaliðar eru sérstaklega boðnir velkomnir í hópinn.
 
Námskeiðið samanstóð af fyrirlestrum, verklegum æfingum og umræðum. Æfðu þátttakendur sig í viðbrögðum við hópslysi og opnun fjöldahjálparstöðvar í kjölfar hamfara.

21. okt. 2009 : Neyðarvarnarátak hjá Ísafjarðardeild

Sjálfboðaliðar í Rauða krossinum á Ísafirði eru um þessar mundir að fara yfir neyðarvarnir deildarinnar og notuðu tækifærið í Rauðakrossvikunni í síðustu viku til að kynna neyðarvarnir félagsins og safna liðsauka sem gerir deildina færari að bregðast við á neyðartímum.

Sjálfboðaliðar á Vestfjörðum opnuðu fjöldahjálparstöð í Grunnskólanum á Ísafirði í Rauðakrossvikunni og gáfu fólki innsýn í það starf sem deildin vinnur á neyðartímum. Sjálfboðaliðarnir hvöttu fólk til að koma í rauðum fötum og mynduðu síðan rauða kross á skólalóðinni fyrir myndatöku.

16. okt. 2009 : Norskum ferðamönnum veitt áfallahjálp

Óskað var eftir áfallahjálp hjá Rauða krossins eftir að maður úr hópi 20 norskra ferðamanna lést í fjórhjólaslysi á Haukadalsheiði í dag. Sjálfboðaliðar úr áfallahjálparteymi og viðbragðshópi höfuðborgarsvæðis tóku á móti fólkinu þegar það kom á hótel sitt í Reykjavík. Einnig setti Rauði krossinn sig í samband við norska sendiráðið og komu tveir starfsmenn þeirra á hótelið. Ferðamennirnir voru vinnufélagar og voru að missa náinn samstarfsmann.

16. okt. 2009 : Forseti Íslands kynnir sér neyðarviðbrögð Rauða krossins

Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, heiðrar Rauða krossinn með því að kynna sér starfsemi deilda í Rauðakrossvikunni sem helguð er neyðarviðbrögðum. 

12. sep. 2009 : Umfangsmikil flugslysaæfing á Egilsstöðum

Hérðas- og Borgarfjarðardeild Rauða krossins tók þátt í flugslysaæfingu sem sett var upp á Egilsstaðaflugvelli í dag. Flugvél með 32 farþega og þrjá í áhöfn átti að hafa hlekkst á við norðurenda flugbrautarinnar þar sem hún brotnaði í tvennt og eldur kom upp.

Sjálfboðaliðar deildarinnar opnuðu söfnunarsvæði aðstandenda þar sem 35 aðstandendur þolenda leituðu aðstoðar. Þar veitti skyndihjálparhópur Rauða krossins einnig skyndihjálp þeim 10 farþegum sem voru minnst slasaðir. Óskað var eftir áfallahjálparteymi úr Reykjavík. Sex þeirra voru strax tilbúnir og áttu að hafa farið austur með ímyndaðri flugvél.

8. sep. 2009 : Námskeið í neyðarstjórnun

Landsskrifstofa Rauða krossins stóð fyrir viðamiklu námskeiði í neyðarstjórnun, í samvinnu við Alþjóða Rauða krossinn, dagana 3.-6. september síðastliðinn í Hafnarfirði. Um 25 þátttakendur sátu námskeiðið. Helstu umfjöllunarefnin voru þær samþykktir og stefnur sem gilda um hjálparstarf á hamfarasvæðum, vinnulag, helstu vinnutól og samvinna við stjórnvöld, alþjóðlegar stofnanir og frjáls félagasamtök.

Markmiðið var að prófa nýtt námsefni sem gengur meðal annars út á að auka þekkingu landsfélaga Rauða krossins á alþjóðlegu hjálparstarfi og skilning á verkefnum Alþjóða Rauða krossins. Kennsluaðferðir voru fjölbreyttar og var námsefninu meðal annars komið til skila með myndböndum, fyrirlestrum, umræðuhópum, hlutverkaleikjum og rökræðum. Í kjölfarið mun Alþjóða Rauði krossinn fara yfir athugasemdir frá þátttakendum og leiðbeinendum og halda áfram að þróa námsefnið.

30. ágú. 2009 : Aðstoð vegna bruna á Dalbraut

Sllökkvilið höfuðborgarsvæðisins óskaði eftir aðstoð Rauða krossins rétt fyrir klukkan hálffimm í nótt eftir að eldur kom upp í húsnæði að Dalbraut í Reykjavík. Tveir sjálfboðaliðar úr viðbragðhópi Rauða krossins mættu á vettvang.

Rauði krossinn veitti  íbúum aðhlynningu og sálrænan stuðning og miðlaði upplýsingum auk þess sem útveguð var gisting fyrir þrjá íbúa. Fólkinu verður boðin aðstoð ef á þarf að halda næstu daga.

20. júl. 2009 : Sjálfboðaliðar Rauða krossins veita farþegum sálrænan stuðning

Útkall barst frá Neyðarlínunni klukkan 14:22 í dag vegna nauðlendingar Boing 763 farþegaþotu frá flugfélaginu United Airlines sem var á leið frá Ameríku til Evrópu.

Reykur hafði komið upp í stjórnklefa flugvélarinnar og óskað var eftir sjálfboðaliðum Rauða krossins til að taka á móti farþegunum 190 þegar þeir komu frá borði í Keflavík og veita þeim sálrænan stuðning. Fjórir sjálfboðaliðar úr neyðarteymi Suðurnesjadeildar eru nú í Leifsstöð.
 
Viðbragðsteymi og neyðarnefnd höfuðborgarsvæðis komu saman í húsnæði Reykjavíkurdeildar og biðu átekta en voru afboðaðir klukkustund síðar.

19. jún. 2009 : Alþjóða Rauði krossinn reiðubúinn að bregðast við inflúensu A (H1N1)

Frá því að inflúensu A (H1N1) varð fyrst vart  hefur Alþjóða Rauði krossinn lagt mikla áherslu á styðja aukinn viðbúnað landsfélaga Rauða krossins og Rauða hálfmánans við faraldrinum. Um leið hefur Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) nú tilkynnt að inflúensan sé komin á 6. stig, en með því telst hún vera orðin að heimsfaraldri, þeim fyrsta í  40 ár.

„Virkja þarf landsfélög Rauða krossins og Rauða hálfmánans um allan heim þannig að þau séu tilbúin að bregðast við hamförunum og sinna stoðhlutverki sínu í samvinnu við stjórnvöld," segir Dominique Praplan, yfirmaður heilbrigðis og umönnunar hjá Alþjóða Rauða krossinum.

Frá því að veiran fannst fyrst í Mexíkó í apríl hafa Rauði krossinn og Rauði hálfmáninn unnið mikið forvarnar- og undirbúningsstarf. Þar á meðal má nefna ráðgjöf til stjórnvalda og stofnana Sameinuðu þjóðanna á sviði neyðarviðbragða, samhæfingu samstarfsaðila úr hópi frjálsra félagasamtaka, fræðslu til almennings og sjúkraflutninga.

Í neyðarbeiðni frá 30. apríl óskaði Alþjóða Rauði krossinn eftir fjárframlögum til verkefnisins sem svara um bil 600 milljónum íslenskra króna (5 milljónir svissneskra franka). Búist er við að tilkynning Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar um að faraldurinn hafi náð 6. stigi veki athygli á mikilvægi þessa starfs.

5. jún. 2009 : Rauði krossinn veitir flugfarþegum áfallahjálp

Tveir sjálfboðaliðar úr neyðarnefnd Suðurnesjadeildar Rauða krossins tóku í nótt á móti farþegum flugvélar Icelandair eftir að bilun kom upp í vélinni í flugi á milli Parísar og Íslands um miðjan dag í gær. Vélin lenti á Gatwickflugvelli og þurftu farþegarnir 148 að bíða á vellinum eftir að vélar frá Icelandair og Iceland Express fluttu þá til Íslands, en þær lentu í Keflavík klukkan 1:45 og rúmlega 3 í nótt. Nokkrir Frakkar höfðu þó snúið heim á leið með lest.

„Flugfarþegarnir báru sig ótrúlega vel, þeir virtust hafa náð að jafna sig meðan beðið var á Gatwickflugvelli, en þar veitti áhöfn vélarinnar sálrænan stuðning á aðdáunarverðan hátt," sagði Karl Georg Magnússon formaður neyðarnefndarinnar.

Ef farþegar finna þörf fyrir aðstoð og sálrænan stuðning geta þeir haft samband við Hjálparsímann 1717 sem er opinn allan sólarhringinn.

4. maí 2009 : Flugverndaræfing á Keflavíkurflugvelli

Laugardaginn 18. apríl var haldin flugverndaræfing á Keflavíkurflugvelli. 18 sjálfboðaliðar frá Suðurnesja- og Grindavíkurdeild voru kallaðir til starfa á flugvellinum en auk þess störfuðu fulltrúar landsskrifstofu í Samhæfingarstöðinni í Skógarhlíð. Þá var Hjálparsíminn 1717 einnig virkjaður. Líkt var eftir sprengjuhótun um borð í flugvél sem lauk síðan með slysi eftir lendingu.

Fjöldahjálparstjórar Grindavíkur- og Suðurnesjadeildar hafa á síðustu mánuðum fengið ýmsa fræðslu og þjálfun vegna þeirra verkefna sem bíða þegar bregðast þarf við neyðarástandi. Meðal þeirrar fræðslu sem þeir hafa fengið eru fjöldahjálparstjóranámskeið, námskeið í sálrænum stuðningi, fræðsla í notkun á Tetra talstöðvum og fræðsla um bráðaflokkun og áverkamat. Þá hafa deildirnar farið ítarlega yfir verkþátt Rauða krossins í flugslysaáætlun Keflavíkurflugvallar og heimsótt þau starfssvæði sem þeim er ætlað að starfa á. Hjálparsíminn hefur sömuleiðis fengið fjölbreytta fræðslu um hlutverk sitt í almannavarnakerfinu ásamt skrifborðsæfingu. Það var því vel þjálfaður hópur sem mætti til æfingarinnar.

28. apr. 2009 : Rauði krossinn um allan heim í viðbragðsstöðu vegna svínaflensu

Alþjóða Rauði krossinn er í viðbragðsstöðu vegna útbreiðslu svínaflensu í Mexíkó og vegna tilfella sem komið hafa upp í Evrópu, Norður Ameríku og Ástralíu. Rauði krossinn er í nánu samstarfi við Alþjóðaheilbrigðisstofnunina (WHO) og stjórnvöld um allan heim.

Rauði krossinn í Mexíkó hefur þegar virkjað sjálfboðaliða sína í um 500 deildum á landsvísu til að  vinna með yfirvöldum við að hindra frekari útbreiðslu inflúensunnar. Rauða kross hreyfingin hefur á undanförnum árum byggt upp viðbragðsáætlanir um allan heim til að hamla því að sjúkdómar sem þessir breiðist stjórnlaust út og verði að alheimsfaraldi. Þegar hefur vinna hafist samkvæmt neyðarvarnaráætlunum í löndum þar sem óttast er að um svínaflensutilfelli sé að ræða.

Hægt er að virkja tugþúsundir sérþjálfaðra sjálfboðaliða Rauða krossins og Rauða hálfmánans um allan heim með litlum fyrirvara til að bregðast við neyðarástandi sé þess þörf og hlúa að fólki í neyð. Rauði kross Íslands gegnir mikilvægu hlutverki í viðbragðsáætlun almannavarna vegna heimsfaraldurs unnflúensu og er því í viðbragðsstöðu líkt og önnur landsfélög Rauða kross hreyfingarinnar.

21. apr. 2009 : Flugslysaæfing á Þórshöfn

Fyrir tilstuðlan Flugstoða var haldin flugslysaæfing á Þórshafnarflugvelli á laugardaginn.

Sjálfboðaliðar Þórshafnardeildar Rauða krossins tóku þátt i æfingunni ásamt öðrum viðbragðsaðilum.

21. apr. 2009 : Fjöldahjálparstjóranámskeið á Reykhólum

Haldið var námskeið fyrir verðandi fjöldahjálparstjóra í Grunnskólanum á Reykhólum um síðustu mánaðarmót og sóttu það níu manns. Námskeiðið samanstendur af fyrirlestrum um ýmis mál tengdum fjöldahjálp og verklegum æfingum.

Grunnskólinn á Reykhólum er í almannavarnaáætlun skilgreindur sem fjöldahjálparstöð ef til neyðarástands kemur í nágrenni Reykhóla. Fjöldahjálparstöðvar eru á flestum stöðum á landinu í skólum og var því mikils virði að starfsmenn grunnskólans sóttu námskeiðið. Yfirleitt eru starfsmenn skóla þeir fyrstu sem kallaðir eru á vettvang ef opna þarf fjöldahjálparstöð. Alls eru rúmlega 160 fjöldahjálparstöðvar staðsettar víðs vegar um landið.

6. apr. 2009 : Æfð opnun fjöldahjálparstöðvar í Kársnesskóla

Fjöldahjálparæfing var haldin í Kársnesskóla í Kópavogi á laugardag. Flugvél átti að hafa hrapað á íbúðarhúsnæði við Þingholtsbraut. Æfingin hófst með boðun frá Neyðarlínunni klukkan 12:05. Þeir fjöldahjálparstjórar Rauða krossins sem tóku þátt fóru strax í að opna fjöldahjálparstöðina og undirbúa komu þolenda.

Þolendur voru leiknir af sjálfboðaliðum Rauða kross deilda höfuðborgarsvæðis ásamt nýliðum björgunarsveitarinnar Kyndils í Mosfellsbæ. Þeir létu skrá sig inn í fjöldahjálparstöðina og reyndi þá á þjálfun í sálrænum stuðningi, þar sem sumir þolendanna voru í miklu ójafnvægi.

Neyðarnefnd höfuðborgarsvæðisins vill koma á framfæri þakklæti til þátttakenda, leikara og fjöldahjálparstjóra fyrir þeirra þátt í vel heppnaðri æfingu.

31. mar. 2009 : Hættuástandi aflýst á Siglufirði

Siglufjarðardeild Rauða krossins  var kölluð út í gærkvöldi vegna yfirvofandi snjóflóðahættu sem skapaðist á Siglufirði. Ákveðið var að hefja rýmingu á húsum sem standa á reit átta. 36 manns úr 30 íbúðum þurftu að yfirgefa heimili sín. Ekki þurfti að opna fjöldahjálparstöð þar sem hægt var að koma öllum fyrir á gistiheimilinu Hvanneyri eða hjá vinum og vandamönnum.

Á fundi aðgerðarstjórnar sem var að ljúka nú klukkan 09:30 var ákveðið að aflétta hættuástandi.
 

26. mar. 2009 : Fjöldahjálparstjóranámskeið á Egilsstöðum

Námskeið fyrir verðandi fjöldahjálparstjóra var haldið á Egilsstöðum á laugardaginn og sóttu það18 manns frá Eskifirði, Stöðvarfirði, Seyðisfirði, Egilsstöðum og höfuðborgarsvæðinu.

Nokkrir þátttakendur voru að endurnýja réttindi sín sem fjöldahjálparstjórar, aðrir að koma í fyrsta sinn.

Námskeiðið byggðist upp á fyrirlestrum, umræðum og verklegum æfingum þar sem þátttakendur æfðu sig í viðbrögðum við hópslysi og opnun fjöldahjálparstöðvar í kjölfar hamfara.

18. feb. 2009 : Fjöldahjálparstjóranámskeið fyrir norðan

Námskeið fyrir verðandi fjöldahjálparstjóra var haldið á Akureyri síðustu helgi. Sóttu það um tuttugu manns frá Siglufirði, Ólafsfirði, Dalvík, Akureyri og af höfuðborgarsvæðinu.
 
Þátttakendur voru ýmist að endurnýja réttindi sín sem fjöldahjálparstjórar eða að sækja í fyrsta sinn námskeið í fjöldahjálp og bjóðum við þá aðila sérstaklega velkomna í hópinn.
 
Námskeiðið samanstóð af fyrirlestrum, verklegum æfingum og umræðum. Æfðu þátttakendur sig í viðbrögðum við hópslysi og opnun fjöldahjálparstöðvar í kjölfar hamfara. Í lok námskeiðs fóru fram fjörlegar umræður um lausnir þátttakenda í verklegu æfingunum, þar sem fram komu hugvitsamlegar lausnir og er greinilegt að þessi hópur verður vandanum vaxinn ef til alvörunnar kemur.

16. jan. 2009 : Aðstoð við bruna á Klapparstíg

Slökkvilið Reykjavíkur óskaði eftir aðstoð Rauða krossins um klukkan fjögur í nótt eftir að eldur kom upp í íbúðarhúsnæði að Klapparstíg 17.