28. apr. 2009 : Rauði krossinn um allan heim í viðbragðsstöðu vegna svínaflensu

Alþjóða Rauði krossinn er í viðbragðsstöðu vegna útbreiðslu svínaflensu í Mexíkó og vegna tilfella sem komið hafa upp í Evrópu, Norður Ameríku og Ástralíu. Rauði krossinn er í nánu samstarfi við Alþjóðaheilbrigðisstofnunina (WHO) og stjórnvöld um allan heim.

Rauði krossinn í Mexíkó hefur þegar virkjað sjálfboðaliða sína í um 500 deildum á landsvísu til að  vinna með yfirvöldum við að hindra frekari útbreiðslu inflúensunnar. Rauða kross hreyfingin hefur á undanförnum árum byggt upp viðbragðsáætlanir um allan heim til að hamla því að sjúkdómar sem þessir breiðist stjórnlaust út og verði að alheimsfaraldi. Þegar hefur vinna hafist samkvæmt neyðarvarnaráætlunum í löndum þar sem óttast er að um svínaflensutilfelli sé að ræða.

Hægt er að virkja tugþúsundir sérþjálfaðra sjálfboðaliða Rauða krossins og Rauða hálfmánans um allan heim með litlum fyrirvara til að bregðast við neyðarástandi sé þess þörf og hlúa að fólki í neyð. Rauði kross Íslands gegnir mikilvægu hlutverki í viðbragðsáætlun almannavarna vegna heimsfaraldurs unnflúensu og er því í viðbragðsstöðu líkt og önnur landsfélög Rauða kross hreyfingarinnar.

21. apr. 2009 : Flugslysaæfing á Þórshöfn

Fyrir tilstuðlan Flugstoða var haldin flugslysaæfing á Þórshafnarflugvelli á laugardaginn.

Sjálfboðaliðar Þórshafnardeildar Rauða krossins tóku þátt i æfingunni ásamt öðrum viðbragðsaðilum.

21. apr. 2009 : Fjöldahjálparstjóranámskeið á Reykhólum

Haldið var námskeið fyrir verðandi fjöldahjálparstjóra í Grunnskólanum á Reykhólum um síðustu mánaðarmót og sóttu það níu manns. Námskeiðið samanstendur af fyrirlestrum um ýmis mál tengdum fjöldahjálp og verklegum æfingum.

Grunnskólinn á Reykhólum er í almannavarnaáætlun skilgreindur sem fjöldahjálparstöð ef til neyðarástands kemur í nágrenni Reykhóla. Fjöldahjálparstöðvar eru á flestum stöðum á landinu í skólum og var því mikils virði að starfsmenn grunnskólans sóttu námskeiðið. Yfirleitt eru starfsmenn skóla þeir fyrstu sem kallaðir eru á vettvang ef opna þarf fjöldahjálparstöð. Alls eru rúmlega 160 fjöldahjálparstöðvar staðsettar víðs vegar um landið.

6. apr. 2009 : Æfð opnun fjöldahjálparstöðvar í Kársnesskóla

Fjöldahjálparæfing var haldin í Kársnesskóla í Kópavogi á laugardag. Flugvél átti að hafa hrapað á íbúðarhúsnæði við Þingholtsbraut. Æfingin hófst með boðun frá Neyðarlínunni klukkan 12:05. Þeir fjöldahjálparstjórar Rauða krossins sem tóku þátt fóru strax í að opna fjöldahjálparstöðina og undirbúa komu þolenda.

Þolendur voru leiknir af sjálfboðaliðum Rauða kross deilda höfuðborgarsvæðis ásamt nýliðum björgunarsveitarinnar Kyndils í Mosfellsbæ. Þeir létu skrá sig inn í fjöldahjálparstöðina og reyndi þá á þjálfun í sálrænum stuðningi, þar sem sumir þolendanna voru í miklu ójafnvægi.

Neyðarnefnd höfuðborgarsvæðisins vill koma á framfæri þakklæti til þátttakenda, leikara og fjöldahjálparstjóra fyrir þeirra þátt í vel heppnaðri æfingu.