12. sep. 2009 : Umfangsmikil flugslysaæfing á Egilsstöðum

Hérðas- og Borgarfjarðardeild Rauða krossins tók þátt í flugslysaæfingu sem sett var upp á Egilsstaðaflugvelli í dag. Flugvél með 32 farþega og þrjá í áhöfn átti að hafa hlekkst á við norðurenda flugbrautarinnar þar sem hún brotnaði í tvennt og eldur kom upp.

Sjálfboðaliðar deildarinnar opnuðu söfnunarsvæði aðstandenda þar sem 35 aðstandendur þolenda leituðu aðstoðar. Þar veitti skyndihjálparhópur Rauða krossins einnig skyndihjálp þeim 10 farþegum sem voru minnst slasaðir. Óskað var eftir áfallahjálparteymi úr Reykjavík. Sex þeirra voru strax tilbúnir og áttu að hafa farið austur með ímyndaðri flugvél.

8. sep. 2009 : Námskeið í neyðarstjórnun

Landsskrifstofa Rauða krossins stóð fyrir viðamiklu námskeiði í neyðarstjórnun, í samvinnu við Alþjóða Rauða krossinn, dagana 3.-6. september síðastliðinn í Hafnarfirði. Um 25 þátttakendur sátu námskeiðið. Helstu umfjöllunarefnin voru þær samþykktir og stefnur sem gilda um hjálparstarf á hamfarasvæðum, vinnulag, helstu vinnutól og samvinna við stjórnvöld, alþjóðlegar stofnanir og frjáls félagasamtök.

Markmiðið var að prófa nýtt námsefni sem gengur meðal annars út á að auka þekkingu landsfélaga Rauða krossins á alþjóðlegu hjálparstarfi og skilning á verkefnum Alþjóða Rauða krossins. Kennsluaðferðir voru fjölbreyttar og var námsefninu meðal annars komið til skila með myndböndum, fyrirlestrum, umræðuhópum, hlutverkaleikjum og rökræðum. Í kjölfarið mun Alþjóða Rauði krossinn fara yfir athugasemdir frá þátttakendum og leiðbeinendum og halda áfram að þróa námsefnið.