10. feb. 2011 : 112 dagurinn haldinn hátíðlegur hjá Rauða krossinum víða um land

Rauði kross Íslands tekur virkan þátt í 112 deginum, föstudaginn 11. febrúar, víða um land og minnir almenning á nauðsyn þess að kunna skyndihjálp. Þá verður Skyndihjálparmaður ársins 2010 einnig útnefndur, en þetta er í tíunda sinn sem Rauði kross Íslands veitir viðurkenningu einstaklingi sem tilnefndur hefur verið fyrir að sýna hárrétt viðbrögð á neyðarstundu og bjargað þannig lífi.

Fulltrúar Rauða krossins sitja þessa stundina þjóðfund um öryggis- og neyðarþjónustu ásamt um eitt hundrað starfsmönnum og sjálfboðaliðum viðbragðsaðila almannavarna. Markmið fundarins er að ræða framtíðarskipan öryggis- og neyðarþjónustu og hvernig þjónustan verði best sniðin að þörfum almennings. Fundur af þessu tagi hefur aldrei áður verið haldinn í tengslum við þessa mikilvægu þjónustu, og verða niðurstöður hans kynntar á hátíðardagskrá 112 dagsins.