23. jún. 2011 : Sumarið er sölutími vatns til styrktar neyðarvörnum Rauða krossins

50 deildir Rauða krossins mynda neyðarvarnanet félagsins um land allt. Rauða kross deildirnar vinna samkvæmt áætlunum um neyðaraðstoð t.d. vegna náttúruhamfara. Á rúmlega 100 stöðum á landinu er húsnæði, oftast skólar, sem skipulagt er sem fjöldahjálparstöð. Fjöldahjálparstöðvar hafa það hlutverk að bjóða þolendum hamfara og annarra alvarlegra atburða öruggt skjól, mat, hvíldaraðstöðu, sálrænan stuðning og ráðgjöf. Um 1.000 sjálfboðaliðar hafa fengið þjálfun sem fjöldahjálparstjórar. Hjálparsími Rauða krossins 1717 starfar sem upplýsingasími á neyðartímum.

Síðasta sumar hófst samstarf Vífilfells og Rauða kross Íslands um sölu á „Vatni til hjálpar“ eða „WaterAid“. Allur ágóði af sölu vatnsins rennur til neyðarvarna Rauða krossins. WaterAid vatnið er með merki Rauða kross Íslands og er sérmerkt Pure Icelandic vatn frá Vífilfelli. Vatnið fæst í 0,5 og 1 lítra flöskum og er til sölu í allflestum verslunum um land allt.

22. jún. 2011 : Rauði krossinn á Selfossi aðstoðar gesti Hótel Selfoss

Húsnæði Rauða krossins á Selfossi var opnað í nótt fyrir gesti Hótel Selfoss sem þurftu að yfirgefa herbergi sín um klukkan tvö vegna elds sem kom upp í þvottahúsi hótelsins. Eldurinn reyndist ekki mikill og var slökktur fljótlega. Það þurfti hins vegar að reykræsta hótelið og var gestum ekki hleypt inn aftur fyrr en um fjögur leytið. 

Á meðan nutu gestir aðhlynningar Rauða krossins en sumir þeirra höfðu yfirgefið hótelið á náttfötum einum fata. Sem betur fer var veður milt og engum varð meint af.

Þó fólk bæri sig yfirleitt vel var sumum illa brugðið og mætti fólk frá Rauða krossinum á hótelið klukkan sjö í morgun til að veita sálrænan stuðning fyrir þá sem þess óskuðu.

16. jún. 2011 : Aðstoð Rauða krossins vegna húsbruna

Útkall barst frá Neyðarlínunni rétt fyrir klukkan tvö í nótt og óskað eftir aðstoð Rauða krossins vegna húsbruna í fjölbýlishúsi við Skúlagötu.