Fjölmenni í veislu Rangárvallasýsludeildar

Guðna Einarsson Morgunblaðinu

23. apr. 2010

Sjálfboðaliðar Rangárvallasýsludeildar Rauða krossins efndu til veislu í félagsheimilinu Heimalandi undir Eyjafjöllum í gær. Sláturfélag Suðurlands, Emmess ís og Ölgerðin lögðu til veisluföngin. Á borðum var hangikjöt og ís og ávextir í eftirmat.

Árni Þorgilsson, formaður Rangárvallasýsludeildarinnar, taldi að rúmlega 200 manns hefðu komið í veisluna. Margir sjálfboðaliðar lögðu hönd á plóginn.

„Þetta tókst mjög vel og fólkið var mjög ánægt,“ sagði Árni. Hann sagði að nokkuð gott hljóð hefði verið í fólki og það hefði ekkert verið að flýta sér. „Menn vöknuðu á sumardaginn fyrsta og allt orðið bjart. Snjór yfir öllu og nokkuð létt yfir fólki.“

Rauði krossinn og Heilbrigðisstofnun Suðurlands hafa haft hjálparmiðstöð í Heimalandi frá því gosið hófst. Þar hafa verið veitingar og veitt áfallahjálp. Árni sagði að þörfin hefði verið brýn. Hann sagði að Rauði krossinn yrði til staðar og mundi veita aðstoð meðan þörf væri á.