Starfsmenn Arion banka hjálpuðu til við hreinsunarstarf undir Eyjafjöllum

11. maí 2010

103 starfsmenn Arion banka og liðsaukar Rauða kross Íslands lögðu sitt á vogarskálarnar og hjálpuðu til við hreinsunarstörf á Skógum, Þorvaldseyri, Rauðafelli, Raufarfelli og við Seljavallalaug undir Eyjafjöllum í síðustu viku.

Á annað hundrað starfsfólk bankans skráði sig sem liðsaukar hjá Rauða krossinum síðasta vetur. Liðsaukar gegna því starfi að vera viðbúnir ef Rauði krossinn þarf á sjálfboðaliðum að halda. Það var því sjálfsagt mál hjá bankanum að liðka til fyrir starfsmenn svo þeir gætu farið og gegnt sjálfboðaliðastörfum. Bankinn leggur mikið upp úr samfélagslegri ábyrgð sinni og telur þetta lið í því verki.

Arion banki stóð fyrir ferðinni á gossvæðið og lagði til rútur og mat fyrir starfsmenn sína auk þess að gefa Rauða krossinum verkfæri til hreinsunarstarfsins.

Dagurinn heppnaðist í alla staði vel og starfsmenn voru ánægðir með að geta aðstoðað bændur við hreinsunarstarfið. Aðstæður á staðnum þegar leið á daginn voru nokkuð erfiðar, öskufall og lítið skyggni. Fólk lét það ekki á sig fá og fór ekki af svæðinu fyrr en skyggni var komið niður í nokkra metra.

Hópurinn var reynslunni ríkari og hugur þeirra sem fóru í ferðina er hjá íbúum svæðanna fyrir austan en mikið er lagt á það fólk. Engum dylst að mikið verk er fyrir höndum og það hefur mikla þýðingu fyrir heimamenn að finna að fólk vill leggja hönd á plóg.