Aðstoð veitt vegna röskunar á flugi

12. maí 2010

Ósk um aðstoð Rauða krossins barst frá starfsmönnum Akureyrarflugvallar á laugardaginn þegar millilandaflug færðist yfir til Akureyrar vegna ösku frá Eyjafjallajökli sem hindraði flug til Keflavíkur.

Fjöldi sjálfboðaliða Akureyrardeildar gaf kost á sér til verksins og hófst þegar undirbúningur. Skipulagi var komið á vakir því gert var ráð fyrir að ástandið gæti varað í einhvern tíma. Deildin fékk til afnota flugskýli þar sem sett var upp aðstaða til að sinna farþegum.

Það kom í hlut deildarinnar að sinna hátt í þúsund farþegum sem voru að fara í flug. Sjálfboðaliðarnir buðu upp á samlokur og drykki og útdeildu teppum  til þeirra sem vildu. Komið var upp sérstakri svefnaðstöðu þar sem markaðstjöldum deildarinnar var tjaldað inni í flugskýlinu og þreyttir ferðalangar gátu hvílt lúin bein á dýnum.

Oft var þröng á þingi en farþegar voru afskaplega þakklátir og áttu ekki til orð yfir að fólk skyldi leggja þetta á sig í sjálfboðavinnu og fékk söfnunarbaukur deildarinnar að njóta þess frá sumum. Einnig gat starfsfólk komið og fengið sér súpu og brauð á meðan á aðgerðum stóð enda mikið álag á þeim.
 
Um tuttugu sjálfboðaliðar tóku þátt í aðgerðunum og stóðu sumir vaktir svo klukkustundum skipti enda stóðu aðgerðir fram á mánudag.