Ráðstefna um framtíðarskipulag áfallahjálpar á Íslandi í kjölfar hamfara
Fjölmennt var á ráðstefnu um skipulag áfallahjálpar á Íslandi sem haldin var fimmtudaginn 14. október í Grensáskirkju. Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri setti ráðstefnuna kl. 12:30, og samstarfsaðilar undirrituðu nýja áætlun um segir til um framtíðarskipulag áfallahjálpar á Íslandi í kjölfar hamfara.
Á ráðstefnunni var farið yfir viðbrögð heilbrigðisþjónustunnar og félagsþjónustu sveitarfélaga eftir jarðskjálftana á Suðurlandi árið 2008. Fjallað var um sálrænar afleiðingar skjálftanna og hvernig áfallahjálp nýttist íbúum þar.
Rauði kross Íslands kynnti sálrænan stuðning og önnur verkefni sín í kjölfar jarðskjálftanna árið 2008 og viðbrögð við eldgossinu í Eyjafjallajökli fyrr á þessu ári. Þá fjölluðu fulltrúar heilbrigðisþjónustunnar og kirkjunnar um verkefni sín og áfallahjálp sem veitt var vegna eldgossins.
Þá voru pallborðsumræður í lok ráðstefnunnar með þátttöku samráðshóps áfallahjálpar í Samhæfingarstöð almannavarna í Skógarhlíð og fyrirlesara ráðstefnunnar.