Bráðaflokkunarvika 20. - 27. maí 2011

24. maí 2011

Þessa viku stendur yfir bráðaflokkunarvika sem líkur föstudaginn 27. maí.  Markmið framtaksins er að vekja athygli á bráðaflokkunarkerfinu og efla þekkingu viðbragðsaðila. Þeir sem standa að verkefninu eru auk Rauða krossins, lögregluembættin, slökkviliðin, heilbrigðisstofnanir, rekstraraðilar sjúkraflutninga,  Neyðarlínan, ISAVIA, Landhelgisgæslan og björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Það eru starfsmenn Landlæknisembættis og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra sem hafa unnið að skipulagi bráðaflokkunarviku í samvinnu við Velferðarráðuneytið. Bráðaflokkunarvikan er samvinnuverkefni viðbragðsaðila í hverju lögregluumdæmi og sóttvarnalæknar umdæma og svæða eru faglegir ábyrgðaraðilar.

Bráðaflokkun er sérstakt flokkunarkerfi sem notað er hér heima og erlendis í stórslysum eða hamförum. Kerfið er einfalt í notkun og það aðstoðar viðbragðsaðila við að greina stórslasaða frá minna slösuðum og auðveldar þeim þannig að koma þeim sem mest þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda sem fyrst undir læknishendur. Bráðaflokkunartöskur eru staðsettar í öllum farartækjum viðbragðsaðila og innleiðing þessa kerfis hefur staðið yfir í tvö ár. Landsskrifstofa Rauða krossins á bráðaflokkunartösku sem deildir geta fengið lánaða fyrir fræðslu og kynningar.

Vikuna 20.- 27. maí verður fræðsla meðal viðbragðsaðila um bráðaflokkun,  bráðaflokkunartöskur munu liggja frammi og kennsluefni verður aðgengilegt á vefsíðum viðbragðsaðila.  

Nánar um bráðaflokkun á vefsíðu almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra.

Á vefsíðu Slysavarnafélagsins Landsbjargar má nálgast fyrirlestur um bráðaflokkum. Slóðina má finna hér.