Æfing hjá Viðbragðshópi höfuðborgarsvæðis

25. maí 2011

Viðbragðshópur höfuðborgarsvæðisins fékk boð um að mæta á æfingu í gær, þriðjudaginn 24. maí klukkan 17. Hópnum var stefnt á Álftanes þar sem búið var að setja upp dagskrá og aðstöðu í hjólhýsi Reykjavíkurdeildar og bílnum Frú Ragnheiði og mættir voru 22 leikarar á öllum aldri.

Æfingunni var skipt á tvær stöðvar og þolendur (leikarar) fóru á milli til að sjálfboðaliðar viðbragðshópsins fengju fleiri tækifæri til að æfa sig í viðtalstækni og sálrænum stuðningi. Þannig var að hluta komið í veg fyrir galla sem oft er á æfingum þegar mjög margir sjálfboðaliðar eru um hvern leikara.

Viðbragðshópur höfuðborgarsvæðisins er skipaður 25 sjálfboðaliðum sem taka þrír saman sjö sólarhringa vaktir í senn og bregðast við ef alvarlegir atburðir gerast á svæðinu, t.d. brunar í húsum og rútuslys. Viðbragðshópurinn sinnir óslösuðum þolendum á vettvangi, veitir þeim sálrænan stuðning og aðstoð við næstu skref. Hópurinn er hluti af neyðarviðbrögðum Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu.

Flestir leikaranna sem voru á aldrinum 4ra - 70 ára komu í gegnum hópinn á www.aukaleikarar.is, en margir þeirra hafa sótt Rauðakrosshúsin á höfuðborgarsvæðinu sem sjálfboðaliðar og gestir og höfðu ánægju af að aðstoða viðbragðshóp Rauða krossins á þennan hátt. Þökk sé leikarahópnum tókst æfingin með ágætum og gaf sjálfboðaliðunum tækifæri á að spreyta sig á að tala við fólk í mismunandi ástandi.