Sumarið er sölutími vatns til styrktar neyðarvörnum Rauða krossins

23. jún. 2011

50 deildir Rauða krossins mynda neyðarvarnanet félagsins um land allt. Rauða kross deildirnar vinna samkvæmt áætlunum um neyðaraðstoð t.d. vegna náttúruhamfara. Á rúmlega 100 stöðum á landinu er húsnæði, oftast skólar, sem skipulagt er sem fjöldahjálparstöð. Fjöldahjálparstöðvar hafa það hlutverk að bjóða þolendum hamfara og annarra alvarlegra atburða öruggt skjól, mat, hvíldaraðstöðu, sálrænan stuðning og ráðgjöf. Um 1.000 sjálfboðaliðar hafa fengið þjálfun sem fjöldahjálparstjórar. Hjálparsími Rauða krossins 1717 starfar sem upplýsingasími á neyðartímum.

Síðasta sumar hófst samstarf Vífilfells og Rauða kross Íslands um sölu á „Vatni til hjálpar“ eða „WaterAid“. Allur ágóði af sölu vatnsins rennur til neyðarvarna Rauða krossins. WaterAid vatnið er með merki Rauða kross Íslands og er sérmerkt Pure Icelandic vatn frá Vífilfelli. Vatnið fæst í 0,5 og 1 lítra flöskum og er til sölu í allflestum verslunum um land allt.

Rauði krossinn sinnir neyðaraðstoð við þolendur hamfara og aðstandendur þeirra, t.d. þegar almannavarnaástand verður vegna eldgosa. Rauði krossinn hefur frá árinu 1974 sinnt verkefnum á sviði neyðarvarna samkvæmt samningum við ríkið og vinnur náið með lögreglu, almannavarnanefndum, sveitarfélögum, Slysavarnafélaginu Landsbjörgu, slökkviliðum og heilbrigðisstofnunum.

Eins og vænta má er salan á Vatni til hjálpar“ eða „WaterAid“ mest yfir sumartímann, enda eru það sennilega fyrst og fremst ferðamenn sem kaupa vatn á flöskum.