Á lygnu kvöldi og um ljósan morgun

Svein Kristinsson

11. maí 2005

Um að gera að setja sig vel inn í málin!

Fjöldahjálparnámskeið á Patreksfirði

Fjörðurinn lá spegilsléttur og sandurinn í Sauðlauksdal sýndist gulari en gull þegar röskir sjálfboðaliðar Rauða kross deildarinnar í Vestur- Barðastrandarsýslu óku í hlað hjá grunnskólanum á Patreksfirði á síðasta föstudagseftirmiðdegi.

Þangað stefndu þeir til að sitja námskeið í fjöldahjálp sem deildin stóð fyrir. Kennararnir, Sveinn Kristinsson og Bryndís Friðgeirsdóttir svæðisfulltrúar, annar að sunnan, hinn að vestan voru mættir á staðinn klyfjaðir gögnum frá Herdísi Sigurjónsdóttur neyðarvarnafulltrúa Rauða kross Íslands.

Þau voru bæði einbeitt á svipinn þegar nemendurnir gengu í stofuna, ákveðin í að þessir sjálfboðaliðar fengju svo sannarlega að drekka ríkulega af viskubrunni þeirra.

Síðan hófst námskeiðið með hefðbundnum kynningum, fræðsluerindum og slæðusýningum fram að kvöldmat. Þá fór hersingin í halarófu niður á veitingastaðinn í bænum og eftir bragðgóða súpu og ilmandi brauð var enn sest að námi. Létu menn ekki deigan síga fyrr en um kl. 22 um kvöldið og héldu heim, sumir um Mikladal og Hálfdán, aðrir inn Raknadalshlíð og suður yfir Kleifaheiði.

Laugardagsmorgun snemmendis var enn sest við. Svæðisfulltrúarnir, hinir gamalreyndu fræðarar, Sveinn og Bryndís, fóru á jafnri og þungri siglingu í gegnum hvern fyrirlesturinn af öðrum, um neyðarvarnaskipulagið og SÁBF og fjöldahjálparstöðvar, o.s.frv. Gripu hvert frammí fyrir öðru, útskýrðu og endurtóku til að festa aðalatriðin í minni. Nemendurnir sátu prúðir, námsþyrstir og vel vakandi undir þessu og virtust skilja hvert orð, jafnvel SÁBF!

Þegar klukkan var að verða 14 var loks botninn sleginn í námskeiðið, búið að skipuleggja fjöldahjálparstöðvar og bjarga fólkinu af Skjaldabjarnarvíkurættinni. Námskeiðinu lauk svo með sameiginlegri máltíð á veitingahúsinu, að vísu tveimur tímum eftir að hún var tilbúin. Samt smakkaðist hún ákaflega vel og höfðu menn að orði hversu dýrðleg hún myndi hafa orðið ef neyslan hefði farið fram á réttum tíma. Á hlaðinu var svo kvaðst, nýir fjöldahjálparstjórar héldu heim hlaðnir fróðleik en svæðisfulltrúar nokkuð dasaðir lögðu land undir hjól, annar í norður en hinn í sólarátt.