Viðbúnaður á Vestfjörðum

29. des. 2012

Rauði krossinn opnaði fjöldahjálparstöð í gær í félagsheimilinu á Patreksfirði eftir að rýma þurfti þrjár götur í bænum. Um 60 manns þurftu að fara frá heimilum sínum, en að sögn Helgu Gísladóttur formanns Rauða krossins í V-Barðastrandarsýslu komust allir í skjól í heimahúsum og því þurfti enginn að gista í félagsheimilnu. Þar hefur þó verið komið fyrir birgðum af vistum, dýnum og teppum ef koma þarf til frekari rýminga, til að mynda á sjúkrahúsinu. Helga segir alla halda ró sinni, og halda sig innan dyra enda hafi viðvörun um óveðrið komið snemma og fólk því getað birgt sig upp í tæka tíð.

Á Súðavík var fólk ferjað með bát yfir á Ísafjörð í gærkvöldi, en þeir sem ekki komust þangað var útveguð gisting á gistiheimili bæjarins. Oddný E. Bergsdóttir, gjaldkeri Rauða krossins í Súðavík, kom þremur strandaglópum í gistingu í heimahúsi eftir að gistiheimilið fylltist. Að sögn Oddnýjar er allt með kyrrum kjörum, flestir halda sig heima við enda gengur á með byljum. Heimafólk reyndi að birgja sig upp eftir fremsta megni í verslun staðarins, enda var lokað í dag vegna veðurs og er einnig farið að ganga mjög á birgðir þar og mjólkurlaust víða. Einnig hefur borið á rafmagnsleysi, og er víða keyrt á vararafstöðvum.

Rauði krossinn er í viðbragðsstöðu um alla Vestfirði. Þar hafa deildir unnið sameiginlega að neyðarvörnum sem ein heild, og eru því vel í stakk búnar að vinna saman verði þess þörf.